Enn vinnur Njarðvík

Kenneth Hogg (t.v.) skoraði sigurmark Njarðvíkur í dag.
Kenneth Hogg (t.v.) skoraði sigurmark Njarðvíkur í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gott gengi Njarðvíkur í 2. deild karla í knattspyrnu hélt áfram í dag þegar liðið hélt til Egilsstaða og mætti þar Hetti/Hugin. Vann Njarðvík að lokum 2:1-sigur.

Rafael Romao kom heimamönnum í Hetti/Hugin í forystu um miðjann fyrri hálfleikinn og leiddi með einu marki í leikhléi.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Magnús Þórir Matthíasson hins vegar metin fyrir Njarðvík með marki úr vítaspyrnu.

Kenneth Hogg skoraði svo sigurmark Njarðvíkur eftir klukkutíma leik.

Njarðvík er áfram á toppi deildarinnar, nú með 28 stig eftir 10 leiki en Þróttur úr Reykjavík og Ægir, sem eru bæði sex stigum á eftir Njarðvík, eiga bæði leik til góða.

KFA gerði þá góða ferð til Ólafsvíkur og hafði betur, 3:1, gegn heimamönnum í Víkingi.

Eftir rúmlega stundarfjórðungs leik kom Mykolas Krasnovskis KFA yfir og Imanol Vergara tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks.

Þegar átta mínútu voru til leiksloka skoraði Hilmar Freyr Bjartþórsson þriðja mark gestanna.

Luis Romero lagaði svo stöðuna ögn fyrir Víking í blálokin en tveggja marka sigur KFA staðreynd.

Magni frá Grenivík og Haukar skildu jöfn á Grenivík, 2:2, í hörkuleik.

Guðni Sigþórsson kom heimamönnum yfir strax á þriðju mínútu áður en Daði Snær Ingason jafnaði metin eftir hálftíma leik.

Eftir tæplega klukkutíma leik sneri Þórður Jón Jóhannesson taflinu við fyrir Hauka.

Guðni skoraði hins vegar annað mark sitt og annað mark Magna á 79. mínútu og tryggði liðinu þannig stig.

Magni er áfram í vandræðum í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins 5 stig.

Botnlið Reynis úr Sandgerði gerði einnig jafntefli, 1:1 gegn KF.

Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik.

Reynir heldur þar með kyrru fyrir á botninum þar sem liðið er með aðeins 4 stig.

Fréttin verður uppfærð með markaskorurum úr síðastnefnda leiknum þegar upplýsingar um þá berast

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert