„Kemur aldrei til Eyja og býst við auðveldum leik“

Viktor Örn Margeirsson hendir sér fyrir skot í leiknum í …
Viktor Örn Margeirsson hendir sér fyrir skot í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Topplið Breiðabliks heimsótti ÍBV í Bestu deild karla í dag. Leikurinn var opinn og spennandi en endaði samt sem áður með markalausu jafntefli, 0:0.

Eyjamenn voru fyrir leikinn í neðsta sæti og því var fyrirfram búist við ansi erfiðum róðri fyrir heimamenn gegn frábæru liði Blika. ÍBV stóð hinsvegar í Blikum og rúmlega það og jafntefli mjög sanngjörn úrslit þegar uppi er staðið.

„Þetta var erfiður leikur. Vel settur upp hjá ÍBV. Þeir voru erfiðir og öflugir. Við fengum svo sem fullt af færum, allavega nóg af færum til að skora mark. Ef við hefðum skorað mark held ég að við hefðum tekið þetta, en það er ekki spurt að því ef maður nær ekki að troða helvítis tuðrunni í netið,“ sagði Viktor Örn sem stóð vaktina í vörn Blika í dag.

„Þú kemur aldrei til Eyja og býst við auðveldum leik. Þeir eru alltaf grjótharðir og með fullt af topp leikmönnum í þessu liði. Þannig að það er aldrei hægt að búast við einhverju auðveldu hér í Eyjum,“ svaraði Viktor Örn, spurður að því hvort botnlið Eyjamanna hefði komið Blikum á óvart í leiknum með góðri spilamennsku.

Eftir leikinn eru Blikar með níu stiga forskot á toppnum. En Víkingar og fleiri lið geta saxað á forskotið með leikjum sem þeir eiga inni. Viktor Örn gaf þó ekki mikið fyrir þennan stigamun.

„Það er svo mikið eftir af þessu móti. Næst er bara Evrópukeppnin og við ætlum okkur áfram þar. Við erum með ágætis forystu á toppnum en ef við ætlum að fara tapa stigum hér og þar og Víkingur, eða önnur lið, saxa á okkur þá er allt mögulegt. En við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að taka þennan titil, það er ekkert launungarmál,“ sagði Viktor Örn að lokum.

mbl.is