Keflavík vann Fram í fjörugum leik

Frans Elvarsson kemur Keflavík í forystu í kvöld.
Frans Elvarsson kemur Keflavík í forystu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Keflavík vann góðan 3:1 sigur á Fram í 11. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á HS Orkuvellinum í Keflavík í kvöld. 

Markaskorarar Keflavíkur voru Frans Elvarsson og Patrik Johannesen og Nacho Heras. Guðmundur Magnússon skoraði mark Fram. 

Keflavík er áfram í sjöunda sæti en nú með 14 stig, aðeins tveimur stigum frá KR og á leik inni. Fram er einnig áfram í áttunda sæti með tíu stig en getur misst bæði FH og ÍA yfir sig á morgun. 

Keflavík komst yfir strax á 3. mínútu leiksins. Adam Ægir Pálsson tók góða hornspyrnu sem datt óþægilega inn í teiginn fyrir hjá Fram. Þar tók við mikill darraðardans þar sem Patrik átti skalla að marki sem Ólafur varði og boltinn barst til Framarans Almarrs Ormarssonar sem skaut boltanum í Frans Elvarsson og þaðan fór boltinn í netið, 1:0 og draumabyrjun hjá Keflavík . 

Patrik Johannesen tvöfaldaði svo forystu heimamanna á 32. mínútu þegar hann fékk sendingu frá Frans eftir að Keflavík vann boltann á miðsvæðinu. Patrik lagði boltann laglega í fjærhornið neðra og heimamenn komnir í hagstæða stöðu. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og hálfleikstölur því 2:0, heimamönnum í vil. 

Indriði Áki Þorláksson hélt að hann hafði minnkað munninn er hann skallaði boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá hægri. Hann var hinsvegar dæmdur rangstæður í kjölfarið og staðan því óbreytt. 

Guðmundur Magnússon minnkaði muninn á 74. mínútu er hann stangaði fyrirgjöf Tiago Fernandes í netið, listlega klárað, 2:1, og tíunda mark Guðmunds í deildinni á tímabilinu. 

Það liðu ekki nema fjórar mínútur þar til Nacho Heras var búinn að koma Keflvíkingum aftur tveimur mörkum yfir er boltinn féll fyrir hann í teignum eftir hornspyrnu. Nacho hamraði svo boltann í fjærhornið efra og í netið, 3:1 og Keflavík aftur komið í góða stöðu. 

Fleiri urðu mörkin ekki og við stóð, 3:1 fyrir Keflavík.

Næsti leikur Keflavíkur er gegn Val á Hlíðarenda. Fram fær FH í heimsókn í næsta leik sínum. Keflavík 3:1 Fram opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is