Sjötti sigur Þróttar í röð

Sam Hewson (t.v.) í leik með Fylki sumarið 2019.
Sam Hewson (t.v.) í leik með Fylki sumarið 2019. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þróttur úr Reykjavík hafði betur gegn Völsungi, 2:1, þegar liðin mættust í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Þróttur hefur nú unnið sex leiki í deildinni í röð.

Kostiantyn Iaroshenko kom Þrótti yfir strax á sjöttu mínútu leiksins og skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði Sam Hewson forystuna með marki úr vítaspyrnu, hans níunda mark á tímabilinu í tíunda leiknum.

Snemma í síðari hálfleik, á 53. mínútu, minnkaði Baldur Sigurðsson muninn fyrir gestina frá Húsavík

Nær komust þeir þó ekki og sjötti sigur Þróttar í deildinni í röð staðreynd.

Þróttur er áfram í öðru sæti, nú með 25 stig, þremur stigum á eftir toppliði Njarðvíkur.

Völsungur heldur kyrru fyrir í fjórða sæti þar sem liðið er með 17 stig.

mbl.is