KA jafnaði gegn tíu Valsmönnum

KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson á flugi í átt að vítateig …
KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson á flugi í átt að vítateig Valsmanna en Jesper Juelsgård bakvörður Vals reynir að ná honum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Valur mættust í 11. umferð Bestu deildar karla í dag í afar mikilvægum leik á KA-vellinum. Liðin voru í 4. og 5. sæti deildarinnar fyrir leik og sigurliðið myndi koma sér upp í 3. sætið.  

Niðurstaðan varð jafntefli, 1:1, og liðin eru áfram í 4. og 5. sæti, nú með 20 og 18 stig.

KA-menn mættu vel breyttir til leiks frá sigurleik gegn Fram í bikarkeppinni. Tveir menn voru í banni auk þess sem Úkraínumaðurinn Oleksiy Bykov var ekki með. Kristijan Jajalo var svo kominn í markið í fyrsta deildarleiknum á tímabilinu.  

 Valsmenn voru sterkari fyrsta kortérið en eftir það var leikurinn jafn. Strax í byrjun leiks átti Arnór Smárason lausan en lúmskan skalla í þverslána á marki KA en eftir það var lítið um opnanir og marktækifæri. Leikurinn rann í gegn átakalítill en bæði lið reyndu þó að sækja. Ekkert mark kom í fyrri hálfleiknum og þurft menn að bíða ansi lengi eftir marki í leiknum. 

Í seinni hálfleik var mikið jafnræði með liðunum og í raun sami taktur og í fyrri hálfleik. KA sótti aðeins í sig veðrið þegar leið á hálfleikinn en það var Valur sem skoraði fyrst. Tryggvi Hrafn Haraldsson slapp einn í gegnum vörn KA, þegar allir leikmenn KA virtust komnir í sókn. Tryggvi hafði nægan tíma til að hlaupa með boltann frá miðlínunni og inn í teig. Þar tók hann eina snertingu á boltann til hægri og sendi hann svo í vinstra markhornið. Virkilega vel afgreitt. 

Skömmu síðar fauk Guðmundur Andri Tryggvason af velli með rautt spjald og lögðust þá Valsmenn í skotgrafirnar. KA sótti nokkuð stíft síðustu tuttugu mínúturnar og skilaði það jöfnunarmarki á 81. mínútu. Nökkvi Þeyr Þórisson setti boltann í netið eftir þunga og fjölmenna sókn KA. Lengra komust heimamenn ekki og 1:1 jafntefli varð því niðurstaðan.  

Bæði lið voru að sýna ágætis fótbolta og var varnarleikurinn sérlega góður hjá báðum liðum. Miðverðir liðanna stóðu sig virkilega vel og bakverðirnir voru nokkuð sprækir. Mest áberandi hjá Valsmönnum var þó Ágúst Eðvarð Hlynsson á miðjunni.  

KA-menn náðu oft að sækja skemmtilega upp kantana en trekk í trekk voru þeir dæmdir rangstæðir í frábærum stöðum. Það er eitthvað sem leikmenn þurfa að laga hið snarasta og þá verður liðið stórhættulegt fram á við. 

KA 1:1 Valur opna loka
90. mín. Nökkvi fellur í teig Vals en fær ekkert nema skammir frá Hólmari Erni. Það er heitt í kolunum.
mbl.is