„Nú eru þeir alveg í helvítis hálsmálinu á okkur“

Hart var barist í leiknum í kvöld.
Hart var barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, sýtti það að liðið hafi ekki gert betur þegar staðan var markalaus í leik liðsins gegn Leikni úr Reykjavík í Bestu deild karla í knattspyrnu í Breiðholti í kvöld. Lauk leiknum með 1:0-sigri Leiknis.

„Þetta var bara alvöru leikur. Það voru bæði lið sem vildu þessi þrjú stig. Þetta datt þeirra megin í dag en þetta gat dottið beggja megin. Við vorum klaufar að hafa ekki gert betur í stöðunni 0:0, að hafa ekki komist í 1:0.

Við tökum sénsa og þeir fá einhver færi eftir það og því verður þetta alvöru barningur. Þetta var örugglega skemmtilegur leikur á að horfa, allavega seinni hálfleikur, það var barátta.

Bara eins og hefur verið á milli þessara liða, þetta eru tvö álíka sterk lið. En mér fannst sem við hefðum getað gert betur, sérstaklega í stöðunni 0:0,“ sagði Árni Snær í samtali við mbl.is eftir leik.

Sigur Leiknis þýðir að liðið er nú aðeins einu stigi á eftir ÍA. Leiknir er með 7 stig í 11. sæti og ÍA með 8 stig í 10. sæti.

„Þetta var sex stiga leikur og við hefðum þurft að ýta þeim aðeins lengra frá okkur, gefa okkur svolítið andrými. Nú eru þeir alveg í helvítis hálsmálinu á okkur, þeir eru að þrýsta vel á okkur,“ sagði hann.

Erum í tröppugangi

ÍA hefur líkt og Leiknir aðeins unnið einn leik í deildinni á tímabilinu til þessa. Hvað hefur vantað upp á hjá Skagamönnum?

„Það er örugglega hægt að rýna ansi mikið í hvað hefur farið úrskeiðis hjá okkur síðustu 4-6 leiki. Þetta hefur ekki verið neitt alslæmt og við erum búnir að vera betri í síðustu 3-4 leikjum heldur en við vorum á tímapunkti á undan því.

Við erum í tröppugangi en við hefðum þurft að tengja þetta í helvítis sigur, þá hefðum við verið sáttari. En það eru fullt af litlum punktum, þetta er enginn heimsendir. Það er ansi margt sem er auðvelt að laga, ég held að það séu bara punktarnir,“ sagði Árni Snær.

Fjórir miðverðir meiddir

ÍA býr nú við mikið miðvarðahallæri. Fyrir leik var Alexander Davey meiddur og í leiknum í kvöld þurftu þrír til viðbótar, Aron Bjarki Jósepsson, Oliver Stefánsson og Wout Droste, að fara meiddir af velli. Hver er staðan á þeim?

„Ég bara þekki það ekki. Alex meiddist náttúrlega í síðasta leik og ég veit ekki alveg hversu lengi hann verður frá. Svo fara Oliver og Aron báðir út núna, það er bara vonandi að það sé hægt að tjasla þeim saman fyrir næsta leik.

Wout dettur líka út, það er bara vonandi að þetta sé ekki alvarlegt og að þeir séu ekki lengi frá. En það kemur bara í ljós þar sem ég þekki það ekki,“ sagði Árni Snær að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is