Þurfti að bíða óþægilega lengi eftir fyrsta sigrinum

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis úr Reykjavík, var kampakátur eftir að liðið vann loks sinn fyrsta sigur í Bestu deild karla í knattspyrnu á tímabilinu. Kom hann í 11. umferð gegn ÍA er Leiknir hafði betur, 1:0, í Breiðholtinu í kvöld.

Um tímamótasigur var einnig að ræða fyrir Viktor Frey sjálfan, sem átti góðan leik í kvöld.

„Þetta er geggjað. Þetta er líka fyrsti sigur minn í efstu deild. Ég þurfti að bíða óþægilega lengi eftir honum en hann kom á endanum,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leik.

Viktori Frey fannst Leiknir eiga sigurinn skilið.

„Mér fannst við stjórna leiknum en þetta var samt bara barátta. Þetta snerist bara um baráttu, ekkert um einhverja taktík eða eitthvað þannig. Þetta var barátta alveg frá fyrstu mínútu,“ sagði hann.

Þrátt fyrir að fyrsti sigurinn hafi ekki komið fyrr en í 11. umferð er liðið nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti. Staðan er því hreint ekki svo slæm. „Nei, nei, það er stutt upp.“

Leiknir er nú með 7 stig í 11. sæti og andstæðingar kvöldsins, ÍA, með 8 stig í sætinu fyrir ofan.

Þrátt fyrir að liðið hafi oft leikið vel lét fyrsti sigur tímabilsins lengi á sér standa. Hvað varð þess valdandi að hann kom loks í kvöld?

„Mér finnst við vera búnir að spila mjög vel undanfarna leiki og höfum verið óheppnir að vinna ekki marga þeirra, eða fá allavega eitthvað út úr þeim, en við vorum bara graðir í þetta núna,“ sagði Viktor Freyr að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert