Arnar reyndi að fá Kára til að spila

Kári Árnason lauk ferlinum sem knattspyrnumaður á síðasta ári sem …
Kári Árnason lauk ferlinum sem knattspyrnumaður á síðasta ári sem Íslands- og bikarmeistari með Víkingi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings ræddi við Kára Árnason um að taka fram skóna og leika með liðinu á ný eftir að Kyle McLagan viðbeinsbrotnaði í leiknum gegn KR síðasta föstudag.

Netmiðillinn Fotboll Skåne ræddi við Arnar fyrir leik Víkings gegn Malmö í forkeppni Meistaradeildarinnar sem fram fer í Malmö í kvöld en Kári Árnason, núverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, lék með Malmö um skeið.

„Okkur vantar tvo varnarmenn í hópinn. Ég spurði Kára hvort hann væri til í að taka fram fótboltaskóna á ný, en hann neitaði. Hann er ánægður í sínu hlutverki sem yfirmaður knattspyrnumála," sagði Arnar við Fotboll Skåne.

Kári sat líka fyrir svörum og sagði: „Ég hef ekki gert meira en að skokka undanfarna sex mánuði. Þetta er ekki inni í myndinni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert