Grótta á toppinn - dramatískur sigur HK

HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson og Grindvíkingurinn Örvar Logi Örvarsson í …
HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson og Grindvíkingurinn Örvar Logi Örvarsson í leik liðanna í Kórnum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Grótta er komið á topp 1. deildar karla í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, eftir að hafa unnið öruggan sigur á Fjölni í kvöld. Selfoss, Fylkir og HK koma þar á eftir, öll aðeins einu stigi á eftir Gróttu.

Á Seltjarnarnesi komu Óliver Dagur Thorlacius og Kristófer Orri Pétursson Gróttu í 2:0 áður en Reynir Haraldsson minnkaði muninn fyrir Fjölni.

Í síðari hálfleik bætti Kjartan Kári Halldórsson við tveimur mörkum fyrir Gróttu og innsiglaði þannig 4:1-sigur. Kjartan Kári er nú markahæstur í deildinni með níu mörk.

Kjartan Kári Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir Gróttu í kvöld …
Kjartan Kári Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir Gróttu í kvöld og er nú markahæstur í Lengjudeildinni með níu mörk. mbl.is/Óttar Geirsson

Fylkir gerði góða ferð í Vogana þar sem liðið heimsótti botnlið Þróttar. Gerðu Árbæingar út um leikinn með þremur mörkum í fyrri hálfleik.

Fyrst skoraði Daninn Mathias Laursen, þá Þórður Gunnar Hafþórsson og loks Arnór Gauti Jónsson. Staðan 3:0 í hálfleik og reyndust það sömuleiðis lokatölur.

HK hafði þá betur gegn Grindavík í æsispennandi leik í Kórnum. Örvar Eggertsson kom HK yfir strax á annarri mínútu.

Valgeir Valgeirsson hjá HK fékk rautt spjald um miðjan síðari hálfleikinn og sömuleiðis Bjarni Páll Linnet Runólfsson sem sat á varamannabekknum.

Virtist HK vera að sigla sigrinum í höfn þegar liðið fékk dæmda á sig vítaspyrnu í uppbótartíma. Úr henni skoraði Tómas Leó Ásgeirsson á sjöttu mínútu uppbótartíma.

Mínútu síðar tryggði hins vegar Bruno Soares HK dramatískan sigur, 2:1.

Loks hafði Afturelding betur gegn Kórdrengjum í Mosfellsbænum, 2:1. Fatai Gbadamosi kom Kórdrengjum yfir strax á þriðju mínútu en aðeins mínútu síðar jafnaði Elmar Kári Enesson Cogic metin fyrir heimamenn.

Á 76. mínútu skoraði Spánverjinn Javier Ontiveros sigurmark Aftureldingar, hans fyrsta mark fyrir liðið.

Grótta er nú á toppnum með 19 stig og svo koma Selfoss, Fylkir og HK í sætunum fyrir neðan, öll með 18 stig.

mbl.is