Sussaði á áhorfendur og fékk rauða spjaldið

Kristall Máni Ingason fékk rauða spjaldið í Malmö í dag.
Kristall Máni Ingason fékk rauða spjaldið í Malmö í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristall Máni Ingason sóknarmaður Víkings fékk rauða spjaldið eftir 39 mínútna leik í fyrri viðureigninni við sænsku meistarana Malmö í Meistaradeildinni í fótbolta sem nú stendur yfir í Svíþjóð.

Kristall Máni jafnaði metin fyrir Víkinga í 1:1 og hljóp síðan í átt að stuðningsmönnum Malmö og setti fingur á munn. Eftir mótmæli leikmanna Malmö sýndi dómarinn frá Moldóvu honum gula spjaldið og síðan það rauða. Kristall hafði áður fengið gula spjaldið fyrir meintan leikaraskap en leikmenn Malmö brutu margoft á honum í fyrri hálfleiknum.

Staðan í hálfleik var 2:1 fyrir Malmö og þungur róður framundan fyrir Víkinga, manni færri í  seinni hálfleiknum.

Það er ekki nóg að Kristall leiki ekki meirihluta leiksins í dag heldur verður hann fyrir vikið í leikbanni í seinni leik liðanna á Víkingsvellinum í næstu viku.

Með markinu í dag hefur Kristall Máni skorað í öllum þremur Evrópuleikjum sínum á ferlinum en hann skoraði í báðum sigurleikjum Víkings í forkeppninni, gegn Levadia og Inter d'Escaldes.

mbl.is