Vestri skellti toppliðinu – annar sigur Þórs í röð

Alexander Már Þorláksson skoraði tvö mörk fyrir Þór frá Akureyri …
Alexander Már Þorláksson skoraði tvö mörk fyrir Þór frá Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tveimur leikjum í 10. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, var að ljúka. Vestri vann óvæntan sigur á toppliði Selfoss þar í bæ og Þór frá Akureyri lenti ekki í vandræðum með KV.

Vestri hafði betur á Selfossi, 1:0, þar sem Deniz Yildir skoraði sigurmark gestanna í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Hann fékk svo sitt annað gula spjald og þar með rautt á 55. mínútu.

Christ Jastrzembski hjá Selfossi fékk einnig að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Með sigrinum færir Vestri sig upp úr 8. sæti í 5. sæti, að minnsta kosti um stundarsakir.

Þór fékk KV í heimsókn á Akureyri og kom Alexander Már Þorláksson heimamönnum í 2:0 með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik.

Þórsarar bættu svo við einu marki til viðbótar áður en KV minnkaði muninn seint í leiknum.

Lokatölur því 3:1 og Þór nú búið að vinna tvo leiki í röð í deildinni.

Þór fer með sigrinum upp fyrir Aftureldingu, úr 10. sæti í 9. sæti, að minnsta kosti um sinn þar sem fjórir leikir til viðbótar eru nú í gangi í umferðinni.

KV heldur kyrru fyrir í 11. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert