Afleitur fyrri hálfleikur fór illa með KR

Aron Kristófer Lárusson skoraði mark KR í Póllandi.
Aron Kristófer Lárusson skoraði mark KR í Póllandi. mbl.is/Óttar Geirsson

Afleitur fyrri hálfleikur fór illa með KR er liðið tapaði 4:1 gegn Pogan Szczec­in er félögin mættust í fyrri leik sínum í fyrstu umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta í Póllandi í dag. 

Aron Kristófer Lárusson skoraði mark KR-inga á 71. mínútu. 

Kamil Drygas setti tvö mörk fyrir heimamenn. Jakub Bartkowski og Luka Zahovic settu hin mörkin.

Fyrirfram var vitað að þetta yrði ansi erfiður leikur fyrir KR-inga. Pogon endaði í 3. sæti pólsku úrvalsdeildarinnar í fyrra og er með mann á borð við Kamil Grosicki í sínu liði. 

Fyrri hálfleikurinn var KR-ingum ansi erfiður. Liðið fékk ekki eitt marktækifæri og sat í nauðvörn allan tímann. 

Kamil Drygas kom Pogon strax yfir á 7. mínútu eftir stórsókn heimamanna. Þar fékk hann boltann þvert fyrir markið frá Sebastian Kowalczyk og renndi honum í markið framhjá Beiti Ólafssyni, 1:0 og heimamenn ekki lengi að komast yfir.

Luka Zahovic tvöfaldaði svo forystu Pogon á 16. mínútu. Þá fékk Sebastian Kowalczyck háan bolta inn fyrir og skaut en Beitir varði. Zahovic náði svo frákastinu og renndi boltanum í netið, 2:0 og útlitið orðið svart fyrir KR. 

Jakub Bartkowski kom svo Pogon í 3:0 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þar skallaði hann fyrirgjöf Kowalcyzk í netið. 

Fleiri urðu mörkin ekki og hálfleikstölur því 3:0. 

Seinni hálfleikurinn mun skárri

Þegar ellefu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum stefndi hann í það sama og sá fyrri. Þar skallaði Drygas hornspyrnu fyrirliðans Damian Dabrowski í netið, 4:0, annað mark Drygas og allt stefndi ljót úrslit. 

Eftir þetta mark fór Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, að gera nokkrar breytingar sem gerðu mikið fyrir KR. Það skilaði sér þegar varamaðurinn Sigurður Bjartur Hallsson vann hornspyrnu sem endaði svo með marki Arons Kristófers. Boltinn féll fyrir bakvörðinn í teignum sem setti hann laglega í netið, 4:1 og KR-ingar minnka muninn. 

Sigurður Bjartur fékk svo gott færi á 75. mínútu en Dante Stipica varði vel í markinu. 

Fleiri urðu mörkin ekki og 1:4 tap KR-inga raunin. 

Liðin mætast aftur í Vesturbænum eftir viku en sigurliðið í þessu einvígi mætir Bröndby frá Danmörku í annarri umferð keppninnar.

Pogon 4:1 KR opna loka
90. mín. Vahan Bichakhchyan (Pogon) á skot framhjá Skot af varnarmanni og í hornspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert