Það er ekkert launungarmál

Almarr Ormarsson
Almarr Ormarsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Almarr Ormarsson, miðjumaður Fram, ræddi við mbl.is að loknu 1:1-jafntefli Fram og KR í Bestu deild karla í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. „Ég er aldrei alveg sáttur við jafntefli en eins og leikurinn þróast þá þiggjum við stigið,“ sagði Almarr sem var að spila sinn þriðja leik með Fram í sumar eftir félagsskiptin frá Val.

Framarar komust yfir undir lok fyrri hálfleiks með marki frá Magnúsi Þórðarsyni en heimamenn jöfnuðu metin strax í upphafi síðari hálfleiks. „Það er svekkjandi að fá jöfnunarmarkið strax í andlitið, sérstaklega þar sem mér fannst þeir ekkert skapa í fyrri hálfleik. Þetta sama gerðist gegn Keflavík um daginn, eitt horn og mark á meðan við vorum sofandi.“

Framarar virðast hafa þétt raðirnar undanfarið, þeir hafa aðeins tapað einum af síðustu sex leikjum sínum og héldu marki sínu hreinu í fyrsta sinn í síðustu umferð, í 1:0 heimasigri gegn FH. Almarr og varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson hafa nýlega komið til liðsins og spilað stórt hlutverki í bættu gengi liðsins.

„Ég held að allir hafi vitað að það þyrfti að fækka mörkunum sem við fáum á okkur. Að fá mig og Brynjar inn í þetta var til að þétta aðeins, það er ekkert launungarmál. En við viljum auðvitað líka sækja og skora mörkin. En jú, það þarf stundum að byrja á grunnvinnunni og fækka þessum mörkum sem við fáum á okkur.“

mbl.is