Gamla ljósmyndin: Mættu Englandi í 8-liða úrslitum

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur nú leikið í fjórum lokakeppnum í röð í Evrópukeppni landsliða. Liðið komst upp úr riðlinum og í 8-liða úrslit þegar keppnin var haldin í Svíþjóð árið 2013 og féll þá úr keppni eftir leik gegn Svíum í 8-liða úrslitunum. 

Ekki er víst að allir átti sig á að íslenska kvennalandsliðið komst í 8-liða úrslit á EM á tíunda áratugnum. Liðið gerði það sannarlega með því að vinna undanriðilinn árið 1994 og lék í 8-liða úrslitum sama ár. 

Þá var hins vegar annað fyrirkomulag og fyrir EM 1995 var notað útsláttarfyrirkomulag líkt og í Evrópukeppnum félagsliða. Þar af leiðandi var ekki eiginleg lokakeppni. Leikirnir í 8-liða úrslitum fóru fram haustið 1994. Undanúrslitaleikir í desember og í febrúar 1995 og úrslitaleikurinn í Þýskalandi í mars 1995. 

Ísland vann undanriðilinn með fullu húsi stiga en liðið var með Hollandi og Grikklandi í riðli. Sigrarnir gegn Hollandi voru sætir. Guðrún Sæmundsdóttir skoraði fyrra mark Íslands beint úr aukaspyrnu í 2:1 sigri á Laugardalsvelli í september 1993. Dóttir hennar Hlín Eiríksdóttir hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár. Fjórum mínútum fyrir leikslok skoraði Ásta B. Gunnlaugsdóttir sigurmarkið eftir hornspyrnu Margrétar Ólafsdóttur. Dóttir Ástu Greta Mjöll Samúelsdóttir lék með landsliðinu á fyrsta áratug þessarar aldar. 

Á meðfylgjandi mynd er Ásta B. Gunnlaugsdóttir á ferðinni í leiknum gegn Hollandi á Laugardalsvellinum en hún birtist í Morgunblaðinu 28. september 1993. Myndina tók Rax eða Ragnar Axelsson sem myndaði í áratugi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

„Ég hélt við gætum þetta ekki, við vorum orðnar svo þreyttar. Síðustu þrettán mínúturnar voru erfiðar og ég veit ekki á hvaða orku við lékum þær, en við áttum greinilega að vinna þennan leik,“ sagði Ásta B. Gunnlaugsdóttir í samtali við Stefán Eiríksson (núverandi útvarpsstjóra) sem fjallaði um leikinn fyrir Morgunblaðið. 

Í síðari leiknum gegn Hollandi ári síðar vann Ísland 1:0 og þá skoraði Olga Færseth sigurmarkið í Rotterdam. Þá tóku við tveir leikir gegn Englandi í 8-liða úrslitum EM. Ísland átti þegar uppi var staðið möguleika á að komast áfram en þær ensku reyndust betri. England vann 2:1 á Laugardalsvellinum 8. október 1994. Þar skoraði Margrét og jafnaði 1:1. Í Brighton 30. október vann England aftur 2:1 en Ásta B. jafnaði 1:1 á 36. mínútu. Ásta átti stangarskot í stöðunni 1:1 í byrjun síðari hálfleiks og möguleikar Íslendinga voru því fyrir hendi. 

Hefði liðið slegið Englendinga út hefði Ísland ekki einungis komist í undanúrslit á EM heldur hefði liðið þá tryggt sér keppnisrétt í lokakeppni HM en það hefur kvennalandsliðinu aldrei tekist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert