Fimm mörk Breiðabliks gegn KR

Agla María Albertsdóttir skýtur að marki KR en hún skoraði …
Agla María Albertsdóttir skýtur að marki KR en hún skoraði eitt mark í fyrsta leiknum eftir endurkomuna til Breiðabliks. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik vann stórsigur á KR, 5:0, í Bestu deild kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Það stefndi allt í jafnan leik á fyrstu mínútum seinni hálfleiks en svo missti KR öll tök.

Miklar breytingar voru á báðum liðum en í liði Breiðabliks má helst nefna nýja markmann þeirra meðan Telma Ívarsdóttir er meidd en hún Eva Nicole Person stendur vaktina í markinu og Rakel Hönnudóttir var skráð sem varamarkmaður en Aníta Dögg Guðmundsdóttir varamarkmaður Blika er farin út í skóla. Fyrirliðinn Ásta Eir Árnadóttir var einnig fjarverandi vegna meiðsla en þetta stoppaði ekki Breiðablik frá því að ná fram rosalegum úrslitum. Agla María Albertsdóttir lék sinn fyrsta leik eftir heimkomuna frá Häcken.

Fyrri hálfleikur fór rólega af stað, Breiðablik var líklegra en ekki með mörg dauðafæri. Breiðablik hefur gríðarlegan hraða vinstramegin með Öglu Maríu og Áslaug Mundu og mikið af sendingum kom þaðan en þær voru ekki að skila sér nógu vel inn í teig. Fyrsta mark leiksins kom svo loks á 35. mínútu þegar Karitas Tómasdóttir keyrir inn í teig og lét það ekki á sig fá að það væri verið að rífa í sig og setur boltann í hornið framhjá Corneliu í markinu, 1:0.

Seinni hálfleikur var rosalega jafn til að byrja með. Bæði lið með fullt af færum og KR-stelpur virkilega líklegar til að skora og meðal annars kemur Marcella Barberic með skot í þverslána. Bergdís Fanney Einarsdóttir leikmaður KR var á fullu að skapa færi en hún fór meidd af velli á 68. mínútu og þá missti KR mikinn kraft. Karitas Tómasdóttir skoraði annað mark leiksins tveimur mínútum seinna með skalla, 2:0, og eftir það mark átti KR enga von.

Í þriðja marki Blika kemur Áslaug Munda með glæsilega fyrirgjöf með hægri fæti inn á vítateiginn þar sem Agla María er búin að koma sér vel fyrir og þrumar boltanum í netið. Flott samvinna hjá landsliðskonunum sem kemur þeim í 3:0.

Karen María Sigurgeirsdóttir kom inn á sem varamaður á 77. mínútu og gaf stoðsendingu í marki Clöru Sigurðardóttir sem einnig kom inn á af bekknum. Karen kemur með góða sendingu fyrir sem Clara stekkur upp í og skallar í markið, 4:0.

Lokamark leiksins var einnig varamannamark en það kom á 87. mínútu. Margrét Brynja Kristinsdóttir kemur inn á sem varamaður á 87. mínútu og á sömu mínútu, í fyrstu snertingu hennar í leiknum, kemur hún með stoðsendingu fyrir Laufey Hörpu Halldórsdóttir sem á ekki í vandræðum með að setja boltann í markið þar sem hún stendur alveg óvölduð inn í teig KR og kemur Breiðabliki í 5:0.

Breiðablik stendur núna í öðru sæti deildarinnar með 24 stig, aðeins tveimur stigum á eftir Val, en KR er áfram í níunda sæti með sjö stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Breiðablik 5:0 KR opna loka
90. mín. Birta Georgsdóttir (Breiðablik) á skot framhjá Hún kobbar markmann KR en varnarmaður kemur þessu í horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert