Valgeir á leið til Örebro

Valgeir Valgeirsson í leik með HK gegn Stjörnunni í úrvalsdeildinni …
Valgeir Valgeirsson í leik með HK gegn Stjörnunni í úrvalsdeildinni síðasta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgeir Valgeirsson knattspyrnumaður úr HK lék væntanlega sinn síðasta leik með Kópavogsliðinu í gærkvöld þegar það vann mikilvægan sigur á Gróttu, 2:1, í 1. deild karla.

Valgeir kvaddi leikmenn HK eftir leikinn en hann er á leið til Svíþjóðar þar sem hann gengur væntanlega til liðs við B-deildarfélagið Örebro á allra næstu dögum.

Valgeir er 19 ára gamall og hefur leikið með meistaraflokki HK frá fimmtán ára aldri. Hann er næstleikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með 56 leiki og þriðji markahæstur með átta mörk en hann á jafnframt að baki 26 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Hann kveður HK í efsta sæti 1. deildar karla en HK og Fylkir standa vel að vígi í tveimur efstu sætum deildarinnar þegar fjórtán umferðum er lokið af 22.

mbl.is