„Sjokkerandi asnalegt“

Höskuldur Gunnlaugsson, lengst til vinstri, fagnar sigrinum á Buducnost á …
Höskuldur Gunnlaugsson, lengst til vinstri, fagnar sigrinum á Buducnost á Kópavogsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik tryggði sér sæti í 3. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta með samanlögðum 3:2-sigri á Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi. Breiðablik vann fyrri leikinn á heimavelli í miklum hitaleik, þar sem tveir leikmenn og þjálfari Buducnost fengu að líta rauða spjaldið.

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, viðurkennir að leikmenn hafi verið stressaðir fyrir seinni leikinn. Leikmenn Buducnost voru með ógnandi tilburði í garð leikmanna Breiðabliks í fyrri leiknum, en ferðalagið til Podgorica gekk heilt yfir vel.

„Við vorum orðnir eitthvað svaka stressaðir. Við ætluðum að passa okkur þegar við lentum á flugvellinum, því við bjuggumst allt eins við einhverjum múgæsingi, að við yrðum truflaðir á hótelinu og tafðir á leiðinni upp á hótel. Við héldum að það yrði allt gert. Svo var var fólkið með þvílíka gestrisni. Okkur við tekið eins og kóngum.

Það voru læti á vellinum, en á góðan hátt. Það var gríðarleg stemning og háværar fótboltabullur. Auðvitað voru einhverjir fávitar, eins og er í flestum stuðningsmannahópum, en svo var hluti af stúkunni sem klappaði fyrir okkur í lok leiks. Leikmenn tókust í spaðann og það var ekkert slæmt í leikslok. Þetta var andstæðingur, frekar en einhver óvinur,“ sagði Höskuldur þegar mbl.is heimsótti hann fyrir æfingu á Kópavogsvelli.

Teknir á teppið af heimamönnum 

Aðra sögu var að segja af fyrri leiknum, þar sem leikmenn og þjálfarar Buducnost urðu sér til skammar.

„Það var algjört bíó. Hvað varðar fótboltann voru þeir góðir í því að hægja, liggja og fá sjúkraþjálfarann inn á réttum tíma. Markvörðurinn lá oft, því þeir vissu að það var ekki hægt að taka hann út af. Þeir voru með alls konar brögð. Svo fannst þeim halla á sig í dómgæslunni en Úkraínumaðurinn virtist vera með allt á hreinu og öll rauðu spjöldin áttu rétt á sér.

Þeir voru fulldramatískir eftir leik og í mótmælum við þessa dóma. Það var sjokkerandi asnalegt og þess vegna vorum við að búast við bíói úti. Þeir voru hinsvegar teknir á teppið af sínu heimafólki, því þeir voru fulltrúar síns heimalands. Þeir voru miklu erfiðari við að eiga þegar þeir einbeittu sér að því að spila fótbolta,“ sagði fyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert