„Ég get ekki verið annað en mjög ánægður,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:3 tap gegn Istanbúl Basaksehir í 3. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.
„Það eru blendnar tilfinningar eftir leik. Ég er hundfúll að við höfum tapað honum, mér finnst leikmennirnir mínar ekki hafa átt skilið að labba út úr þessum leik í tapliðinu.
En að sama skapi er ég mjög stoltur af liðinu að hafa spilað jafn vel og raun ber vitni á móti stórliði frá Tyrklandi. Mér fannst við góðir með boltann og án hans. Auðvitað koma atvik þar sem þeir eru góðir, enda frábærir fótboltamenn. En stóran hluta af leiknum stóðum við í þeim og gott betur og vorum trúir því sem við stöndum fyrir. Sjálfsmyndin var góð og við vorum hugrakkir, þannig ég get ekki verið annað en bara mjög ánægður.“
Þannig það er margt jákvætt sem þið takið með ykkur úr leiknum?
Já klárlega, mér finnst það ekki vera nokkur spurning. Við verðum að taka orkuna úr þessum leik og flytja hana yfir á sunnudaginn þegar við mætum Stjörnunni, það er klárt mál.
Erum ekki að fara út til að skemmta okkur
Seinni leikurinn verður út í Tyrklandi á fimmtudaginn í næstu viku. Óskar viðurkennir að það verði erfitt verkefni en þeir ætla sér ekki að vera neinir túristar.
„Það verður á brattann að sækja. Þeir fara með tveggja marka forystu þangað en við erum ekki að fara út til þess að vera túristar eða til þess að skemmta okkur. Við ætlum að reyna að ná í eins góð úrslit og nokkur kostur er, helst að ná upp þessum mun og komast áfram. Þannig við ætlum að selja okkur dýrt,“ sagði Óskar að lokum.