Saddar stjörnur sem eru að elta peningana

Höskuldur Gunnlaugsson og félagar mæta Istanbúl Basaksehir í 3. umferð …
Höskuldur Gunnlaugsson og félagar mæta Istanbúl Basaksehir í 3. umferð sambandsdeildarinnar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik mætir tyrkneska liðinu Istanbúl Basaksehir í 3. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta. Fyrri leikurinn er á Kópavogsvelli í kvöld og seinni leikurinn í Tyrklandi viku síðar.

„Þetta er mjög stórt lið með samansafn af söddum stjörnum sem eru að elta peningana, vonandi,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson kíminn í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins á Kópavogsvelli.

„Það eru gífurleg gæði í þeim. Maður hefur verið að skoða þá undanfarið og þetta er örugglega besta lið sem við höfum nokkurn tímann mætt í Evrópukeppninni. Þetta verður veisla. Við verðum að koma á Kópavogsvöll og koma þeim á óvart í fyrri leiknum og koma okkur í góða stöðu fyrir seinni leikinn, sem gæti orðið mjög erfiður. Það gekk upp hjá okkur á móti Austria Wien og Racing í fyrra,“ sagði Höskuldur.

Breiðablik komst einnig í 3. umferðina í fyrra, en tapaði þá fyrir skoska liðinu Aberdeen. Þá lék Kópavogsliðið heimaleik sinn á Laugardalsvelli, en Kópavogsvöllur hefur verið mikið vígi fyrir liðið. „Hefðum við spilað við Aberdeen á Kópavogsvelli hefðum við örugglega komist í umspilið,“ sagði Höskuldur.

Breiðablik hefur unnið 22 keppnisleiki í röð á heimavelli. Sautján þeirra hafa komið í deildinni, sem er met. Fyrirliðanum líður að sjálfsögðu vel á Kópavogsvelli.

„Við erum með mikið sjálfstraust hér, þar sem við höfum lagt inn alla vinnuna. Maður er að púla hérna allan dag og svo er maður með baklandið, nánast allan Kópavog, á bakinu. Það er svo merkilegt fyrirbæri að komast á skrið í fótbolta. Maður dettur inn í eitthvað hugarástand þegar maður labbar inn á völlinn hér á Kópavogsvelli.“

mbl.is