Þurfum að eiga leik lífs okkar

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Það er erfitt að vera ósáttur með 1:0-sigur gegn mjög góðu liði en eins og leikurinn þróaðist þá eigum við fleiri færi til að skora,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir sigur sinna manna á pólsku meisturunum í Lech Poznan í 3. um­ferð Sam­bands­deild­ar­inn­ar á Víkingssvelli í kvöld.

„En við vorum að kljást við stórt og gott lið og ég sætti mig auðvitað við 1:0-sigur,“ bætti hann við. En voru Víkingarnir svona góðir eða gekk lítið upp hjá pólska stórliðinu?

„Ég vil vona að við höfum verið þetta góðir, að við skemmdum leikplanið fyrir þeim. Við vorum hugrakkir, við erum í góðu formi og við reynum alltaf að pressa og spila fótbolta. Það er erfitt gegn liði sem er með góða tekníska leikmenn en þeir eru lið með nýjan þjálfara, að reyna finna út hvernig þeir vilja spila. Þetta var góður tími til að spila gegn þeim, ég myndi ekki vilja mæta þeim seinna á tímabilinu.“

Þá segir Arnar að sínir menn eigi von á allt öðruvísi leik í Póllandi í næstu viku. „Útileikurinn verður allt öðruvísi, þar verða þeir með frábæran stuðning frá áhorfendum og við þurfum að eiga leik lífs okkar til að slá þá út.“

Takist Víkingum að slá pólska liðið út eftir síðari leik liðanna í Póllandi í næstu viku munu Íslandsmeistararnir mæta Malmö frá Svíþjóð eða Dudelange frá Lúxemborg næst. Þau lið spila í forkeppni Evrópudeildarinnar og tapliðið þar mætir sigurvegaranum úr þessu einvígi. Malmö vann fyrri leik liðanna 3:0 á heimavelli í kvöld.

mbl.is