Við getum keppt við þessi lið

Ari Sigurpálsson skorar hér sigurmarkið á Víkingsvelli í kvöld.
Ari Sigurpálsson skorar hér sigurmarkið á Víkingsvelli í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Ari Sigurpálsson skoraði glæsilegt sigurmark Víkinga í 1:0-sigri liðsins á Lech Poznan frá Póllandi í fyrri viðureign liðanna í 3. umferð Sambandssdeildarinnar á Víkingsvellinum í kvöld. Poznan er ríkjandi pólskur meistari með öfluga leikmenn innanborðs en Ari segir Víkinga nógu góða til að ná árangri í Evrópukeppninni.

„Við getum keppt við þessi lið. Með okkar leikstíl og gæðin í leikmannahópnum, við getum spilað við þessi stærri lið í Evrópu,“ sagði Ari í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Liðin mætast aftur í Póllandi í síðari leiknum í næstu viku og þó Ari hafi verið hæstánægður með eigin frammistöðu og leik liðsins í kvöld var hann fljótur að benda á að einvígið er bara hálfnað.

„Það er auðvitað bara hálfleikur. Ef við mætum ekki í næsta leik þá skiptir þessi engu máli. Við þurfum auðvitað fyrst að klára leikinn gegn Fram á sunnudaginn en svo fljúgum við út og undirbúum okkur. Ég er bara ógeðslega spenntur að spila fyrir framan 40 þúsund manns.“

mbl.is