Blikakonur hefndu ófara úr fyrstu umferð

Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins.
Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Blikakonur ætluðu sér ekki að tapa aftur fyrir Keflavík þegar liðin mættust í 11. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta  í Kópavoginum í kvöld.  Sýndu það með mikilli ákefð í sóknarleik sínum en Keflavík hélt sjó, það dugði hinsvegar ekki til og Breiðablik vann 3:0 en Keflavík vann fyrri leikinn í fyrstu umferð með einu marki.

Blikakonur sóttu án afláts fram eftir leik, fengu skot og horn en besta færið átti Agla María Albertsdóttir á 10. mínútu þegar henni tókst ekki að koma inn frábærri fyrirgjöf Birtu Georgsdóttur, sem hafði enn og aftur tætt upp hægri kantinn, en Samantha Leshnak í marki gestanna varði glæsilega í horn.   

Næsta færi Blika kom svo á 29. mínútu þegar fyrirgjöf Karítasar Tómasdóttur datt ofan á slána og fyrir markið en Keflavíkurkonur voru miklu sneggri að átta sig og koma boltanum út á völl. 

Það var liðinn um hálftími þegar Keflvíkingar fóru að bíta frá sér, náðu góðri sókn þar sem lítið vantaði uppá að skapa verulega hættu og skömmu síðar fengu þær fyrsta hornið.   Þrátt fyrir að Keflavíkurkonur væru farnar að fikra sig framar sló það lítið á sóknartilburði Blika, skotin voru mörg en markið lét á sér standa.   

Seint á síðustu mínútu fyrri hálfleiks brast svo ísinn þegar Birta braust enn og aftur upp hægri kantinn, hristi af sér varnarmenn og gaf fyrir upp við endalínu.  Clara Sigurðardóttir kom þá aðvífandi og skoraði af stuttu færi, 1:0. 

Hrikalega sárt fyrir Keflavík að fá mark á sig eftir hetjulega baráttu en það segir sína sögu að fyrir hlé áttu Blikar 15 skot á markið, þar af hittu 9 skot á markið en Keflavík er ekki með neitt skot skráð.

Blikakonur hófu leikinn eins og þann fyrri – með látum og Clara náði frábæru skoti af stuttu færi en þeim mun sneggri var Samantha og varði.  Hún kom þó engum vörnum við á 53. mínútu þegar Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti frábæra sendingu yfir vörn Keflavíkur og boltinn datt fyrir Birtu, sem skallaði af öryggi í markið af stuttu færi, 2:0.   

Á 61. mínútu skoraði svo Agla María eftir vesen í vörn Keflavíkur þegar hún lét vaða úr miðjum vítateig og staðan 3:0. 

Eftir sigurinn eru Blikar tveimur stigum frá Val í efsta sæti deildarinnar en Keflavík enn í sjöunda sætinu. Í næstu umferð fær Keflavík Íslandsmeistara Vals í heimsókn á meðan Blikakonur halda yfir ásinn til móts við Stjörnuna í Garðabæ.

Breiðablik 3:0 Keflavík opna loka
90. mín. Írena Héðinsdóttir Gonzalez (Breiðablik) á skot sem er varið Opið færi og þrumuskot framhjá Samönthu en þá varði Silvia á línu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert