Seiglusigur í uppbótartíma

Bergdís Fanney Einarsdóttir og Arna Dís Arnþórsdóttir í fyrri leik …
Bergdís Fanney Einarsdóttir og Arna Dís Arnþórsdóttir í fyrri leik liðanna í sumar. Eggert Jóhannesson

Stjörnukonur fóru með harðsóttan 2:1 sigur í hús úr Vesturbænum í kvöld í Bestu deild kvenna. Vesturbæingar komust yfir í fyrri hálfleik, en sigurmark Stjörnunnar kom ekki fyrr en eftir að venjulegum leiktíma var lokið.

Bæði lið voru á höttunum eftir stigunum þremur í kvöld, en Stjarnan þurfti á sigri að halda til að halda í við toppliðin, á meðan KR-ingar eru í harðri fallbaráttu. Það þurfti því ekki að koma á óvart að leikurinn hafi einkennst af mikilli baráttu í fyrri hálfleik, þar sem Stjörnukonur voru þó meira með boltann.

Það voru hins vegar KR-ingar sem áttu hættulegri sóknir í fyrri hálfleiknum, og upp úr einni þeirra fékk Guðmunda Brynja Einarsdóttir sannkallað dauðafæri á 21. mínútu eftir laglegan undirbúning Marcellu Barberic, en Guðmunda hitti ekki boltann almennilega. Einungis þremur mínútum síðar var Marcella aftur á ferðinni, en nú var hin unga og efnilega Ísabella Sara Tryggvadóttir sem tók við fyrirgjöfinni og skoraði sitt annað mark á leiktíðinni með góðu skoti.

Eftir markið féllu KR-ingar vel til baka, en Stjörnukonur náðu þrátt fyrir það ekki að skapa sér mikið í fyrri hálfleik, en beittu þess í stað langskotum, sem litlu skiluðu. Það munaði þó mjóu á 40. mínútu þegar bæði Katrín Ásbjörnsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir fengu færi upp úr einni og sömu hornspyrnunni, en inn vildi boltinn ekki.

Stjörnukonur mættu í seinni hálfleikinn af miklum krafti og ætluðu sér greinilega að jafna leikinn sem fyrst. Það voru einungis um fimm mínútur liðnar af hálfleiknum þegar þær fengu aukaspyrnu nánast út við endamörk hægra megin, og endaði fyrirgjöfin á kollinum á Málfríði Ernu Sigurðardóttur og í markinu.

Jasmín Erla og Katrín hafa myndað stórhættulegt sóknarteymi í sumar, og báðar fengu þær færi til þess að ná forystunni á næstu mínútum, en varnarlína KR stóð í ströngu við að koma í veg fyrir jöfnunarmarkið. Þrátt fyrir þungar sóknir Stjörnunnar virtist því fátt benda til annars en að leikurinn myndi enda með jafntefli þegar komið var út í uppbótartíma.

Það var þó ekki, því að Stjörnukonur fengu hornspyrnu á annarri mínútu uppbótartíma, sem Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir tók og sendi inn á markteiginn. Þar var Málfríður Erna aftur mætt og náði að skora sigurmarkið.

Þegar horft er yfir leikinn í heild sinni verðast úrslitin að teljast sanngjörn, þar sem Stjörnukonur voru mun meira með boltann í seinni hálfleik. Engu að síður munu KR-ingar naga sig rækilega í handarbökin fyrir að hafa hleypt inn sigurmarki á lokamínútunum eftir hetjulega baráttu sem var nærri því búin að skila dýrmætu stigi í botnbaráttunni.

KR-ingar eru því enn með sjö stig í næstneðsta sæti, þremur stigum frá Þór/KA í 8. sæti. Stjarnan er einnig áfram í þriðja sæti eftir leikinn, en nú með 23 stig, sex stigum minna en Valur í efsta sæti og einu stigi minna en Breiðablik í því öðru, en Blikar eiga leik til góða. Næsti leikur Stjörnunnar er einmitt við Breiðablik, og má því eiga von á harðri baráttu þar.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KR 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Málfríður Erna Sigurðardóttir (Stjarnan) skorar +2 1:2! Aftur skorar Stjarnan eftir fast leikatriði vinstra megin frá! Klafs í teignum en Málfríður Erna Sigurðardóttir nær að koma tánni í boltann og sigurmarkið í höfn!
mbl.is