Slæmt að fá á sig mark en þetta var skelfilegt

Samantha Leshnak átti góðan leik fyrir Keflavík í kvöld.
Samantha Leshnak átti góðan leik fyrir Keflavík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum alveg með okkar plan gegn Blikum, sem spila oftast eins og þær gerðu enda höfum við náð góðum úrslitum á móti þeim,“ sagði  Gunnar Magnús Jónsson þjálfari kvennaliðs Keflavíkur eftir 3:0 tap fyrir Blikum í Kópavoginum í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í knattspyrnu, Bestu deildinni.

Með gríðarlegum dugnaði tókst Keflavíkurkonum að halda markinu hreinu, allt þar til á síðustu sekúndum í uppbótartíma fyrri hálfleiks. „ Við gerum okkur líka grein fyrir stöðu liðanna, að Breiðabliki sé klassa fótboltalið, en við verðum bara að spila á  okkar styrkleikum og það reyndum við í dag.  Það er alltaf slæmt að fá á sig mörk en það var skelfilegt að fá eitt á sig rétt fyrir hálfleik, þegar ég reyndar hélt að hálfleikurinn hefði átt að vera liðinn.  Það breytir því að við áttum að klára hálfleikinn en þetta var því súrara.“

Þrátt fyrir að vera þremur mörkum undir eftir klukkutíma leik tókst Keflavík að ná aftur upp baráttuviljanum. „Við töpuðum þrjú-núll en í þessari baráttu skipta mörkin líka máli og við ætluðum ekkert að fara æða út úr stöðum okkar til að bjóða Blikum í markasúpu.  Við héldum því áfram okkar skipulagi og stelpurnar gáfust ekkert upp.  Sum lið brotna við að lenda þremur mörkum undir og hætta en mitt lið lagði sig allt fram þar til lokaflautið kom,“  bætti þjálfarinn við.

Dreymdi Blika að hefna?

Samantha Leshnak markvörður Keflavíkur hafði í nógu að snúast í kvöld og varði oft glæsilega. „Jú, það var mikið að gera og eflaust var þessi leikur góð skemmtun að horfa á.  Við vissum alveg að Blikar myndu sækja, að þetta yrði hreint og beint stríð af fullum krafti í báðum hálfleikjum en vissi líka að það myndi enginn slaka á.  Við brotnuðum ekki við að Blikar skyldu skora í lok fyrri hálfleiks en  það var mikið af sóknum og skotum svo þú reynir að vinna út frá því.    Það getur verið að ég hefði átt að gera eitthvað öðruvísi en það verður bara að halda áfram.  Við unnum fyrri leikinn í sumar og kannski dreymdu Blikarnir um að hefna fyrir það,“  sagði Samantha eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert