Getur vel verið að hann sé með hendurnar á boltanum

Brynjar Gauti Guðjónsson þakkar Kyle McLagan fyrir leikinn eftir fjörugt …
Brynjar Gauti Guðjónsson þakkar Kyle McLagan fyrir leikinn eftir fjörugt jafntefli á Framvellinum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Brynjar Gauti Guðjónsson bjargaði stigi fyrir Fram með jöfnunarmarki undir lok leiks í 3:3 jafntefli gegn Víkingum úr Reykjavík á Framvellinum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Nýliðarnir náðu 2:0 forystu um miðjan fyrri hálfleikinn gegn Íslandsmeisturunum en virtust hafa misst sigurinn úr höndum sér þegar Víkingar skoruðu þrjú mörk á sjö mínútna kafla til að snúa taflinu við. Mbl.is náði tali af Brynjari strax að leik loknum, sem var bæði sáttur og svekktur með niðurstöðuna.

„Við vorum náttúrulega komnir í 2:0, og þá finnst manni helvíti fúlt að missa þetta niður. Þeir skora þrjú auðveld mörk á stuttum tíma, við töpum aðeins einbeitingunni og Víkingar eru með frábært lið, þeir gengu á lagið,“ sagði Brynjar sem var þó ekki alsvekktur með stigið.

„Þegar ég horfi svona heilt yfir þetta, þá tek ég alveg einu stigi gegn Íslands- og bikarmeisturunum, en ef maður skorar þrjú mörk á heimavelli þá vill maður þrjú stig.“

Framarar kreistu fram jöfnunarmarkið á 87. mínútu þegar Brynjar skóflaði boltanum í netið af stuttu færi, en gestirnir voru þó á þeirri skoðun á markvörður þeirra, Ingvar Jónsson, hafi verið búinn að handsama knöttinn áður en Brynjar náði til hans.

„Það getur vel verið, hann missir frá sér boltann og ég hendi mér á hann. Það getur vel verið að hann sé með hendurnar á boltanum, en hvort hann er með vald á honum veit ég ekki. Nú man ég ekki alveg hvernig reglurnar eru en svona er þetta. Það átti að dæma brot í aðdragandanum á einu marki hjá þeim og við áttum mögulega tilkall til vítaspyrnu. Eigum við ekki að segja að þetta jafni sig allt út.“

Brynjar var að spila sinn fjórða leik fyrir Fram eftir að hann gekk til liðs við félagið frá Stjörnunni í sumar. Hann segist ánægður með skiptin, enda sé Fram félag á uppleið. „Eftir því sem ég er lengur hérna, því ánægðari er ég með að vera kominn. Frábær stemning í kringum félagið, þetta er gríðarlega gott lið og gott þjálfarateymi. Ég held að menn hafi aðeins verið sofandi gagnvart liðinu í heild. Við setjum kassann út og höldum áfram að horfa upp töfluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert