Helvíti gaman að skora þrjú

Atli Sigurjónsson skoraði þrennu í dag.
Atli Sigurjónsson skoraði þrennu í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta var virkilega skemmtilegt,“ sagði Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir að hafa skorað þrjú af fjórum mörkum KR Í 4:0 sigri á ÍBV í Bestu deild karla í fótbolta á Meistaravöllum í dag. 

„Þetta var virkilega skemmtilegt. Það var gaman að spila í dag og sennilega af því ég skoraði þrjú mörk. Hingað til hefur ekki skipt mig máli að skora en það er helvíti gaman að skora þrjú. 

Það fer mikið púður í varnarleikinn og hlaup þannig maður þarf að ná að jafna þetta út. Ég náði að spila aðeins framar í dag en oft áður og það skilaði sér ágætlega og náði að klára almennilega.

Leikurinn minn hefur aldrei gengið út á það að skora einhver mörk en þetta er gaman líka.“

KR-ingar hafa nú unnið tvo leiki í röð í aðeins annað skipti á tímabilinu. Stígandi hefur verið í leik KR og leikmennirnir virka mun kraftmeiri.  

„Við höfum sett meiri kraft og baráttu í þetta og reynt að hafa gaman af þessu. Það er helvíti langt sumar eftir ef við ætlum ekki að hafa gaman af þessu það sem eftir er, sagði Atli að lokum en hann er fyrsti KR-ingurinn í átta ár sem skorar þrennu í efstu deild karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert