Þá sökk hjartað í mínu liði

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjum ágætlega en náum enn og aftur ekki að nýta yfirhöndina, tilfinningin eftir 0:3 tap er alls ekkert frábær, hvort sem leikurinn verðskuldi slíkt tap,“  Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH

Eiður Smári var ekki sáttur við að sjá uppgjöf í sínum mönnum.   „Eftir færin eða hálffærin sem við sköpum var skellur að lenda undir en mér fannst við koma ágætlega til baka eftir fyrsta markið og héldum áfram okkar spili en þegar við fengum vítið á okkur, þá nánast sá ég hjartað úr mínu liði sökkva.   Þegar kominn smá örvæntingastöðu þá hættir þú að taka réttar ákvarðanir, jafnvel ofhugsa hlutina en ég er ágætlega sáttur við hvernig við komum út í seinni hálfleik en þegar á móti blæs, þá hvessir all svakalega.“

FH er sem stendur í 10. sæti deildarinnar með 11 stig, einu minna en ÍBV og einu meira en Leiknir frá Reykjavík, sem á þó tvo leiki til góða. „Við þurfum að skora og vitum það, þyrftum jafnvel að vera aðeins djarfari og hætta að spá of mikið í þetta, spila eins og í yngri flokkunum þegar eina sem maður sá var markið.   Þetta er allt eitthvað sem við þurfum að taka á inní klefa allir saman, þurfum að gera okkur grein fyrir í hvaða stöðu við erum í og það er bara við sem liðsheild sem getum snúið þessu við.“

Næst er Kórdrengir í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar og þjálfarinn segir þá þurfa aðra nálgun. „Bikarkeppni er bara þannig að ef þú tapar þá ertu úr leik.  Öll verkefni okkar virðast erfiðari en þau ættu að vera en nú þurfum við að núllstilla okkur, geyma deildina aðeins og einbeita okkur að bikarleiknum gegn Kórdrengjum á fimmtudaginn,“ sagði þjálfarinn.

Blákaldur veruleikinn fyrir okkur

Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH var frekar dapur eftir leikinn en gefst ekki upp.  „Við erum búnir að koma okkur í þessa stöðu og þetta er blákaldur veruleikinn, við höfum engar afsakanir og þurfum að spyrna okkur frá botninum.  Mér fannst við byrja ágætlega en þá fær KA fyrsta markið sitt.  Við héldum áfram eftir það en þegar líða fór á leikinn tók KA hann yfir og vann verðskuldað.  Við töpum verðskuldað, það er alveg klárt og gífurleg vonbrigði fyrir okkur en við þurfum að halda áfram að vinna í okkar hlutum og sýna að við séum betra lið en við höfum sýnt undanfarnar vikur og mánuði,“ sagði fyrirliðinn eftir leikinn. 

mbl.is