Brekkan verður brattari hjá ÍA

Arnór Smárason skoraði sigurmarkið.
Arnór Smárason skoraði sigurmarkið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

ÍA fékk Val í heimsókn í 16. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld og vann Valur 2:1-sigur. Fyrir leikinn var ÍA neðsta sæti deildarinnar með 8 stig en Valur sat í því fimmta með 25 stig.

Fyrri hálfleikur fór rólega af stað en á 19. mínútu vildi ÍA fá vítaspyrnu þegar að Eyþór Aron Wöhler féll inn í teignum eftir samstuð við Hólmar Örn Eyjólfsson en Egill Arnar Sigurþórsson dómari var ekki á sama máli.

Á 43. mínútu vildi ÍA síðan fá rautt spjald á Hólmar Örn Eyjólfsson þegar að hann setti höndina í andlitið á Eyþóri Aroni en hann uppskar bara gult spjald fyrir það. 0:0 í hálfleik og allt gat gerst.

Seinni hálfleikur fór hressilega af stað en strax á 51. mínútu komust Valsmenn yfir með marki frá Aroni Jóhannssyni. Patrick Pedersen átti laglega fyrirgjöf og Aron kláraði snyrtilega í tómt markið.

Á 66. mínútu fékk ÍA vítaspyrnu þegar að Arnór Smárason braut á Hlyni Sævari Jónssyni. Kaj Leo i Bartalsstovu tók vítið en Frederick Schram varði.

Valur brunaði síðan upp í sókn, Tryggvi Hrafn Haraldsson átti frábæran sprett, gaf boltann á Ágúst Eðvald Hlynsson sem gaf boltann fyrir og Arnór Smárason setti boltann í fjærhornið, stöngin inn og staðan orðin 2:0 fyrir Val.

Á 85. mínútu minnkaði Kristian Lindberg muninn fyrir ÍA með góðu skallamarki. Lengra komst ÍA ekki og lokaniðurstaðan 2:1 fyrir Val.

Valur situr enn í 5. sæti með 27 stig en ÍA situr sem fastast á botninum með 8 stig og brekkan verður bara brattari og brattari. 

ÍA 1:2 Valur opna loka
90. mín. ÍA fær hornspyrnu Hornspyrna fyrir ÍA. Benedikt Warén tekur spyrnuna en hún fer yfir allan pakkann og í markspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert