Stórgott að skora fimm mörk

Ágúst Þór Gylfason í síðasta leik Stjörnunar gegn Fram.
Ágúst Þór Gylfason í síðasta leik Stjörnunar gegn Fram. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Það er gott að fá sigur og núna þurfum við að fara að tengja þá saman,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Stjörnunnar eftir 5:2 sigur í kvöld.

„Fyrir leikinn horfðum við á hvernig Blikarnir voru og horfðum á okkar lið og hvernig við myndum mæta þeim. Þeir eru mjög orkumiklir og í góðu formi svo við þurftum að stilla upp liði sem gat jafnað hlaupagetu þeirra og allt það sem þeir hafa í sínu gæða liði.

Við sýndum það í dag að við vorum jafnir þeim á flestum sviðum sem skilaði okkur þessum sigri í dag og ég held að þeir hafi ekki búist við okkur svona öflugum,“ sagði Ágúst eftir frábæran sigur Stjörnunnar á toppliði Blika í kvöld.

Síðustu tveir leikir Stjörnunnar fóru báðir 2:2 og síðasti leikur þeirra var 7. jafntefli liðsins í sumar. Með 5 mörkum náðu þeir að vinna þriðja leikinn í röð sem þeir fá á sig tvö mörk í rosalegum leik þeirra gegn toppliði Blika í kvöld.

„Það er næsta mál að fara að tengja saman sigra en við ætlum að njóta núna. Njóta góðra frammistöðu í kvöld, að skora fimm mörk á Blika í kvöld var stórgott og að fá allan þennan stuðning frá áhorfendum, það gaf okkur ákveðna orku sem þurfti í þennan leik.

Við vissum það að við myndum hlaupa mikið og þurftum að pressa þá og jafna það sem þeir eru að gera og við gerðum það og gott betur,“ sagði Ágúst í viðtali við Mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Eggert Arnar, tveggja marka maður sagði að markmiðið væri að ná Evrópusæti í viðtali við Mbl.is í kvöld en Ágúst er ekki alveg komin það langt. „Við erum ekki að stressa okkur yfir einhverju sæti, við viljum bara góða frammistöðu. Það er gott að þessir ungu strákar eru það sprækir og góðir, góðir með sig oft að þeir fara stundum fram úr sér en það er gott að hann setji það markmið að vera í Evrópusæti.

Auðvitað væri það frábær fyrir okkur og maður horfir þangað ef það býst en við þurfum að sjálfsögðu tengja saman sigra en þó að maður vinni einn leik er maður ekki búin að ná Evrópusæti svo við höldum áfram okkar vinnu,“ sagði Ágúst sem er með mikið af ungum og efnilegum leikmönnum í liði sínu og þrjú mörk hjá Stjörnunni í dag voru skoruð af leikmönnum fæddum 2004.

„Ég er virkilega stoltur af liðinu og það sem við gerðum í dag. Þetta var frábær frammistaða gegn Blikum sem eru sprækir og eru á frábæru róli svo þetta var kærkomið og góður sigur,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert