Svo skoraði ég frábært mark

Eggert Aron (nr. 19) að fagna einu af fimm mörkum …
Eggert Aron (nr. 19) að fagna einu af fimm mörkum Stjörnunar í kvöld. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

„Mér líður frábærlega, þetta var geggjað,“ sagði Eggert Aron Guðmundsson, tveggja marka maður í kvöld í leik Stjörnunnar og Breiðabliks í kvöld sem endaði 5:2 fyrir Stjörnunni. 

„Þetta er svona leikur sem maður kvíðir alltaf fyrir þessum leik því Blikar eru búnir að sýna hvað þeir eru góðir en við vildum skora á það í dag,“ sagði Eggert í viðtali við Mbl.is eftir leikinn. Eggert er fæddur árið 2004 en á 34 leiki í efstu deild.

„Við skorum snemma en síðan bökkum við aðeins eins og gerist vanalega þegar maður skorar svona snemma. Síðan eftir að þeir jafna setjum við bara í fjórða gír og skorum annað sem var  frábært hjá Emil. Síðan jafnast leikurinn aðeins út en svo næ ég að skora þarna frábært mark fyrir hálfleikinn sem skipti máli fyrir okkur,“ sagði Eggert.

„Frábært mark,“ lýsir Eggert seinna marki sínu og frábært mark var það. Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar kom með stoðsendingu upp allan völlinn og Eggert tekur rosalega móttöku þegar boltinn kemur yfir hann, Höskuldur í vörn Breiðablik virðist vera ennþá að dást að móttöku hans í staðin fyrir að fara í hann þegar Eggert vippar boltanum yfir Anton í markinu. Stjarnan komst því í 3:1 fyrir hálfleik. 

Fyrra mark hans kom á 4. mínútu en það skoraði hann eftir að skot Ísak Andra fór í varnarmann, þá var Eggert réttur maður á réttum stað og á flott skot niðri í fjærhornið.

Stjarnan situr í 4. sæti deildarinnar eins og staðan er núna en Eggert vill fara ofar. „Við ætlum að sýna það að við ætlum að vera í toppbaráttunni í sumar, allavega Evrópusæti,“ sagði Eggert fullur af metnaði eftir 5:2 sigur á toppliðinu í dag.

Blikar eru ennþá á toppi deildarinnar með 8 stiga forskot á Víking í öðru. Stjarnan er í 4. sæti, 10 stigum frá toppliði Blika.

mbl.is