Komnar með blóð á tennurnar

Úr leik Keflavíkur og Vals.
Úr leik Keflavíkur og Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þetta bara hrikalegt, örugglega versti leikur okkar á tímabilinu,“ sagði  Kristrún Ýr Holm fyrirliði Keflavíkurkvenna eftir 5:0 tap fyrir Íslandsmeisturum Vals þegar liðin mættust suður með sjó í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta, Bestu deildinni.

Keflavík hefur nú mætt efstu liðunum í deildinni, Breiðablik fyrst og nú Val en þrátt fyrir mjög góðan varnarleik á köflum, hefur það ekki dugað til.  „Við vorum að eiga við gott Valslið, hugmyndaríkt og þær náðu að opna vörn okkar í nokkur skipti og voru gráðugar upp við markið, virkilega gott lið og miklu betri í dag.  Við vorum líka orðnar þreyttar, stutt á milli leikja og vorum að koma úr löngu fríi, það gæti spilað inní en þetta gefur okkur bara blóð á tennurnar og vonandi getum við nýtt það í næsta leik. Við viljum spila mjög agaðan varnarleik, sérstaklega á móti liðum eins og Val og Breiðablik.  Okkur hefur tekist það nokkuð vel í sumar en ekki í síðustu tveimur leikjum okkar, það hefur ekki gengið upp,“ sagði fyrirliðinn.

Keflavík er í 7. sæti deildarinnar með 10 stig en Þór/KA er líka með tíu, Afturelding 9 og KR 7 svo Suðurnesjaliðið er alls ekki öruggt með sæti sitt í deildinni en fyrirliðinn er ákveðin.  „Við ætlum bara að hugsa um okkur, ekkert að skoða stigatöfluna, reyna okkar besta og vinna þessi lið sem eftir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert