Ég vissi að mörkin kæmu alltaf

Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var ánægður með sína menn eftir 3:0-sigur gegn Ægi í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta er bara góð tilfinning. Þetta varð hörkuleikur. Ægismenn komu hérna og voru mjög flottir varnarlega, þéttir á miðjunni og náðu að gera okkur erfitt fyrir. Við vorum of óþolinmóðir að reyna að troða boltanum miðsvæðis og spjölluðum um það í hálfleik að gera það aðeins öðruvísi. Þá opnaðist þetta aðeins meira og við fengum fleiri sénsa. 

Það var lengi vel 0:0 og þeir fengu alveg sénsa þar sem þeir gerðu vel og hefðu getað skorað mark. Við vorum kannski ekki stressaðir að við myndum ekki skora en ég var orðinn smá áhyggjufullur vegna þess að þegar lið liggja svona lágt og beita skyndisóknum er alltaf hætta að þau skapi færi og skori. Ég hafði meiri áhyggjur af því en að við myndum ekki skora, ég vissi að það kæmi alltaf.“

KA-menn sýndu mikinn karakter með að halda áfram að reyna og láta það ekki á sig fá að illa gekk að koma boltanum í netið.

„Það hefur gengið vel hjá okkur undanfarið og það er sjálfstraust í liðinu. Bikarkeppnin er bara svona, við erum búnir að mæta öðru liði úr sömu deild sem skoraði á undan okkur og það var líka þolinmæðisvinna. Þetta á ekki að koma neinum á óvart að þegar minni liðin svokölluðu ná að halda lengi í bikarnum þá er þetta bara erfitt. Ég set bara fullt hrós á Ægismenn en ég hefði viljað að við hefðum áttað okkur fyrr á því hvernig við áttum að opna þá.“

Aðspurður um óskamótherja stóð ekki á svörum Hallgríms.

„Víkingur, endilega komið með þá norður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert