Ekki ánægður með úrslitin en ánægður með frammistöðuna

Ægismenn duttu úr leik í kvöld þrátt fyrir hetjulega baráttu.
Ægismenn duttu úr leik í kvöld þrátt fyrir hetjulega baráttu. Ljósmynd/Knattspyrnufélagið Ægir

Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, var stoltur af liði sínu þrátt fyrir 3:0-tap gegn KA á Akureyri í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu fyrr í kvöld.

„Auðvitað er maður aldrei ánægður eftir tap en við vorum að spila við lið sem er tveimur deildum ofar og það var mjög augljós gæðamunur. 

Við vorum að spila þetta kerfi í fyrsta skipti. Strákarnir fengu ekki mikinn tíma til að læra á það en ég er ánægður með hvernig það gekk. Leikurinn var í járnum þar til það voru 15 mínútur eftir en eftir fyrsta markið varð þetta erfitt. Ég er ekki ánægður með úrslitin en ég er ánægður með frammistöðuna.“

Ægisliðið barðist eins og ljón allan leikinn og var greinilegt að þeir höfðu alveg trú á verkefninu.

„Þessi barátta og vilji er eitthvað sem ég vil sjá mína leikmenn gera. Þeir gáfu allt í þennan leik, börðust um hvern einasta bolta og ég er mjög ánægður með þeirra framlag.“

Ægir er í toppbaráttu í 2. deild og er Nenad bjartsýnn fyrir framhaldinu.

„Nú einbeitum við okkur að deildinni. Þetta verður erfitt, það er 21 stig í boði og það er allt hægt. Að mínu mati eru fimm lið í séns á að fara upp, ég myndi segja að Njarðvík fari pottþétt upp en maður veit aldrei. Næstu lið eru Þróttur og við en mér finnst Völsungur og Haukar einnig eiga séns.“

Nenad Zivanovic sem leikmaður Þórs árið 2010.
Nenad Zivanovic sem leikmaður Þórs árið 2010. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson
mbl.is