Rúgbíleikur frekar en fótboltaleikur

Sif Atladóttir gekk til liðs við Selfoss frá Kristianstad í …
Sif Atladóttir gekk til liðs við Selfoss frá Kristianstad í Svíþjóð fyrir þetta tímabil. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Skemmtilegt í tapleiknum," sagði Sif Atladóttir um metið sem hún sló í kvöld en hún varð leikja­hæsta knatt­spyrnu­kona Íslands frá upp­hafi.

„Nú? Já ókei en gaman,“ voru fyrstu viðbrögð Sifjar Atladóttur þegar henni var tjáð að hún hefði slegið þetta 9 ára gamalt met Katrínar Jónsdóttir eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld. 

Sif og félagar hennar í Selfossi töpuðu 0:3 í kvöld í hörkuleik gegn Þrótti í Laugardalnum.

„Þetta var meira rúgbí leikur frekar en fótboltaleikur og mér finnst bara því miður dómarinn ekki setja línuna nógu snemma og undir lokin er þetta bara orðið hættulegt bara fyrir bæði lið. Þróttur og við vorum að dansa svo langt yfir línuna að það verður bara að taka á þessu," segir Sif skiljanlega pirruð yfir dómgæslu leiksins. 

„Ef þú tekur spjöldin kvenna- og karla megin þá eru karlarnir að fá miklu fleiri spjöld heldur en við og spjöldin eru af ástæðu. Ég er ekki að segja að við í Selfoss eigum ekki að vera að fá spjöld en að það hafi komið eitt spjald í þennan leik er bara fáránlegt á báða boga.

Þeir verða að fara að setja betri línu kvennamegin, þetta er ekki hægt,“ sagði Sif.

Sif er 37 ára gömul tveggja barna móðir og var sprækust inn á vellinum undir lokin og átti meðal annars góðan sprett upp allan völlinn á 87. mínútu og náði skoti á markið eftir að hafa spilað allan leikinn.

„Mér líður vel! Það er ennþá hraði í þessari díselvél. Ég hef voða gaman af þessu en maður er nett pirruð eftir svona leiki. Þetta er fótbolti og maður vill spila fótbolta en þegar maður fær ekki rammann sem þess þarf þá verður þetta blóðugra.

Við Þróttararnir erum þekktar fyrir að gefa ekkert eftir og það er línan sem var sett og því miður ræðst það af nokkrum meiðslum í dag og það þarf að skoða það,“ sagði Sif en meðal annars kom sjúkrabíll að sækja Álfhildi Rósu Kjartansdóttur, fyrirliða Þróttar eftir leikinn.

Hólmfríður Magnúsdóttir er einnig tveggja barna móðir eins og Sif og er snúin aftur í fótbolta og er komin til liðs við Selfoss aftur um 5 mánuðum eftir barnsburð og er einungis einum leik á eftir meti Sifjar.

„Það er geðveikt að fá hana aftur. Hún er þvílíkur reynslubolti eins og maður sér. Hún gaf aldrei út að hún væri hætt það var bara búið að ákveða það fyrir hana. Ég er ótrúlega stolt af henni og það er gulls ígildi að fá svona leikmann inn með þá reynslu sem hún hefur. Ég er bara ótrúlega glöð að hafa fengið hana til baka.

Þetta er karakter og þú sérð það, það eru tæpir fimm mánuðir síðan hún átti barn og hún er að hlaupa hérna inn á vellinum og gefur allt. Hún tapaði bara varla skallabolta í dag, það sýnir bara viljann hjá þessari ungu dömu," sagði Sif með áherslu á „ungu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert