Lennon skaut FH í undanúrslit

Steven Lennon skorar eitt þriggja marka sinna í kvöld.
Steven Lennon skorar eitt þriggja marka sinna í kvöld. mbl.is/Kristvin

FH er komið í undanúrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir 4:2-sigur á Kórdrengjum í átta liða úrslitunum í kvöld, en Kórdrengir leika í 1. deild.

Kórdrengir voru fyrri til að skora því Gunnlaugur Fannar Guðmundsson kom liðinu yfir á 7. mínútu. Adam var ekki lengi í paradís og skoski framherjinn Steven Lennon jafnaði á 26. mínútu.

Aðeins þremur mínútum síðar kom Sverrir Páll Hjaltested Kórdrengjum aftur yfir, en Lennon jafnaði aftur aðeins fjórum mínútum síðar. Skotinn var ekki hættur, því hann bætti við sínu þriðja marki og þriðja marki FH á 42. mínútu var staðan í hálfleik 3:2.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en Kristinn Freyr Sigurðsson gulltryggði FH-ingum sigurinn á 54. mínútu og þar við sat.  

mbl.is