Nær FH loksins að vinna leik?

Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH.
Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kórdrengir og FH mætast í Safamýri í 8-liða úrslitum í bik­ar­keppni karla í knatt­spyrnu í kvöld. 

Kórdrengir unnu Aftureldingu í 16-liða úrslitum í framlengdum leik. Eftir 90 mínútur var staðan 1:1 en Kórdrengir kláruðu leikin á 116. mínútu í framlengingu.

Tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum á sitthvorn bekk liðanna en Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja fékk rautt spjald og verður því ekki á hliðarlínunni í kvöld.

Kórdrengir eru í næst efstu deild í 9. sæti með 18 stig.

FH vann auðveldan sigur á liði ÍR í 16- liða úrslitum en leikurinn endaði 6:1 en það er síðasti leikur sem liðið vann og var spilaður í júní. FH er í þriðja neðsta sæti í efstu deild og ekkert virðist vera að ganga upp hjá þeim en þeir hafa einungis unnið tvo leiki í deildinni í sumar.

FH hefur ekki skorað mark í fimm leikjum í röð í deildinni og hefur ekki unnið leik síðan í maí en þeir hafa spilað 10 deildarleiki síðan þá. Það að þeir séu ennþá í bikarkeppninni er líklegast eini ljósi punktur á tímabilinu hjá liðinu og spennandi verður að sjá hvað liðið gerir í kvöld.

Kórdrengir - FH klukkan 18.00

mbl.is