Víkingur úr leik eftir framlengdan leik í Póllandi

Ari Sigurpálsson skoraði sigurmarkið í fyrri leik liðanna.
Ari Sigurpálsson skoraði sigurmarkið í fyrri leik liðanna. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Víkingur úr Reykjavík mátti sætta sig við 1:4-tap fyrir ríkjandi Póllandsmeisturum Lech Poznan eftir framlengdan síðari leik liðanna í 3. umferð Sambandsdeildar UEFA í Poznan í kvöld. Víkingur barðist hetjulega allt til enda en féll að lokum úr leik. Samanlagt fór einvígið 2:4.

Víkingur hóf leikinn af gífurlegum krafti og var hársbreidd frá því að ná forystunni strax á þriðju mínútu.

Ari Sigurpálsson fékk þá boltann við vítateigslínuna eftir að heimamenn höfðu skallað aukaspyrnu Viktors Örlygs Andrasonar frá, Ari lék laglega á varnarmann Lech, skaut að marki, það fór af öðrum varnarmanni og naumlega yfir samskeytin.

Fimm mínútum síðar fékk Erlingur Agnarsson sendingun frá Helga Guðjónssyni, brunaði framhjá Pedro Rebocho, lék með boltann inn í vítateig, lagði hann út á Helga sem skaut naumlega framhjá nærstönginni úr sannkölluð dauðafæri.

Á 12. mínútu fékk Lech sitt fyrsta færi og úr urðu fjögur markskot, öll úr stórhættulegum stöðum. Þrjú þeirra fóru í varnarmenn Víkings og það fjórða, hörkuskot Radoslaw Murawski úr D-boganum, stefndi niður í nærhornið en Ingvar Jónsson varði frábærlega.

Mínútu síðar fékk Erlingur sannkallað dauðafæri til þess að skora. Pablo Punyed reyndi þá stungusendingu, Joel Pereira komst inn í hana en boltinn barst beint fyrir fætur Erlings sem þurfti bara að stýra boltanum í netið af stuttu færi en skotið hans laust og of nálægt Filip Bednarek í marki Lech, sem varði með fótunum.

Leikurinn róaðist töluvert eftir þessa fjörugu byrjun en eftir rúmlega hálftíma leik náðu heimamenn forystunni. Pereira sendi þá boltann upp hægri kantinn á Kristoffer Velde, hann hafði nægan tíma til að athafna sig, gaf fyrir á Mikael Ishak, fyrirliða Lech, sem var einn á auðum sjó fyrir miðjum vítateignum og kláraði laglega niður í fjærhornið.

Skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði Lech svo forystuna. Pedro Rebocho renndi boltanum til hliðar á Pereira, sem gaf boltann inn á vítateig þar sem Velde sleit sig lausan frá Loga Tómassyni og stýrði boltanum auðveldlega í netið af stuttu færi.

Staðan því 2:0, Lech Poznan í vil, í leikhléi og staðan í einvíginu orðin 2:1.

Síðari hálfleikur var öllu rólegri en sá fyrri þar sem Lech tók lífinu með ró og hélt boltanum vel.

Ishak fékk þó gott færi snemma í hálfleiknum þegar skot hans á lofti eftir laglega langa sendingu Alan Czerwinski fór naumlega yfir markið.

Danijel Dejan Djuric, sem kom inn á sem varamaður hjá Víkingi í leikhléi, fékk gott í færi á 69. mínútu. Hann gerði þá vel í að koma sér í skotfæri í vítateignum, náði skoti sem fór af varnarmanni og þaðan skoppaði boltinn naumlega framhjá stönginni.

Skömmu síðar slapp Ishak einn í gegn en Ingvar kom langt út á móti og varði frábærlega.

Undir lokin færðu Víkingar sig framar til þess að freista þess að minnka muninn og jafna einvígið.

Það varð til þess að Lech fékk hvert dauðafærið á fætur öðru. Ishak skaut til að mynda einu sinni í stöng, Ingvar varði nokkrum sinnum frábærlega einn á móti einum og sóknarmenn Lech skutu auk yfir eða framhjá.

Þessi endurteknu klúður heimamanna áttu eftir að draga dilk á eftir sér þar sem Víkingum tókst að minnka muninn og þar með jafna metin í 2:2 í einvíginu með síðustu spyrnunni í venjulegum leiktíma.

Ari gaf þá frábæra stungusendingu inn fyrir á Erling sem var kominn í kjörstöðu hægra megin í vítateignum, hann renndi boltanum hnitmiðað fyrir markið þar sem Danijel kom aðvífandi og lagði boltann upp í þaknetið af markteig.

Markið kom á síðustu mínútu uppbótartímans, þeirri fimmtu. Eftir markið, fyrsta mark Danijels fyrir Víking, var flautað af og Víkingum því á ótrúlegan hátt búið að takast að knýja fram framlengingu.

Á sjöttu mínútu framlengingarinnar náði Lech tveggja marka forystu og eins marks forystu í einvíginu á ný.

Michal Skóras renndi þá boltanum til hliðar á Filip Marchwinski, hann hafði nægan tíma til þess að stilla upp í skot við D-boganum, þrumaði að marki, Ingvar var með hendur í boltanum en tókst aðeins að verja skotið upp í markhornið.

Skömmu síðar gerði Danijel sig líklegan þegar hann fór lystilega með boltann í vítateig Lech, náði loks skoti sem fór af varnarmanni og boltinn rúllaði á markteignum áður en honum var hreinsað frá.

Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings, fékk þá fínt skotfæri skömmu fyrir hálfleik í framlengingunni en skot hans úr vítateignum í kjölfar hornspyrnu Danijels fór í varnarmann.

Á 110. mínútu fékk Júlíus svo sitt annað gula spjald og þar með rautt, sem var fullkomlega fráleit ákvörðun hjá Julian Weinberger, austurrískum dómara leiksins.

Fyrra gula spjaldið fékk hann í síðari hálfleik fyrir laglega tæklingu þar sem hann var fyrri til í boltann og það sama var uppi á teningnum á fjórðu mínútu síðari hálfleiks framlengingarinnar þegar hann náði glæsilegri rennitæklingu þar sem hann náði einungis boltanum áður en Jesper Karlström steig á hann.

Mikill skellur fyrir Víking.

Á 116. mínútu fékk Lech dæmda vítaspyrnu þegar Afonso Sousa skaut í höndina á Davíð Erni Atlasyni.

Sousa steig sjálfur á vítapunktinn en Ingvar las hann sem opna bók og varði vítaspyrnuna auðveldlega.

Á 119. mínútu tókst Sousa hins vegar að skora. Þá fékk hann sendingu inn fyrir frá Marchwinski, lék á Ingvar og renndi boltanum niður í hornið.

Staðan orðin 4:1 og reyndust það lokatölur. Lech Poznan vann þar með einvígið 4:2 og mætir Dudelange frá Lúxemborg í lokaumferð undankeppni. Sambandsdeildarinnar.

Víkingur hefur hins vegar lokið keppni í Evrópukeppni þetta tímabilið eftir hetjulega baráttu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Lech Poznan 4:1 Víkingur R. opna loka
120. mín. Leik lokið +1 Víkingur er úr leik í Sambandsdeildinni eftir hetjulega baráttu.
mbl.is