Langt frá okkar besta í dag

Anna María Baldursdóttir býr sig undir skallaeinvígi við Mist Edvardsdóttur …
Anna María Baldursdóttir býr sig undir skallaeinvígi við Mist Edvardsdóttur í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Við byrjuðum illa og fengum tvö mörk á okkur snemma. Við náðum svo ekki að sýna hvað í okkur býr og þetta var svolítið kjaftshögg,“ sagði Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is.

Stjarnan mátti þola 1:3-tap fyrir Val í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta á heimavelli í kvöld. Valskonur voru með 3:0 forystu í hálfleik og átti Stjörnuliðið ekki sinn besta leik.

„Við fáum eitt mark á okkur snemma en við vitum að við getum snúið taflinu við en svo er það erfitt þegar það eru komin tvö á okkur og hvað þá þrjú í fyrri. Þetta var erfitt í seinni en við börðumst áfram og reyndum að gefa þeim alvöruleik,“ sagði Anna.

Stjarnan lék mjög vel gegn Breiðabliki í síðustu umferð í deildinni, en liðið náði sér ekki eins vel á strik í kvöld.

„Þær leyfðu okkur kannski ekki að vera betri en þetta, Valsliðið í dag. Þær mættu með hörku og eru með marga leikmenn sem hafa spilað þessa leiki og þær kunna að vinna. Kannski var einhver þreyta í okkur, eða eitthvað svoleiðis. Við ætluðum okkur að vera miklu betri. Þetta var langt frá okkar besta í dag,“ sagði fyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert