Ætluðum að keyra yfir FH-inga í byrjun og það tókst

Andri Rúnar Bjarnason í baráttu við Ólaf Guðmundsson í dag.
Andri Rúnar Bjarnason í baráttu við Ólaf Guðmundsson í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV lék á als oddi þegar liðið sigraði FH, 4:1, í Bestu deild karla í Vestmannaeyjum í dag.

Fyrir leikinn voru Eyjamenn í níunda sæti með 12 stig, en FH-ingar sæti neðar með einu stigi minna. Það var því um nóg að berjast í dag. Það voru hins vegar bara heimamenn sem mættu til leiks í dag og FH-ingar sáu aldrei til sólar.

„Fílingurinn er bara frábær. Þetta var einn af þessum dögum þar sem það gekk allt upp eins og við lögðum það upp.

Við vorum mjög vel gíraðir. Við ætluðum að keyra yfir þá á fyrstu 15-20 mínútunum og það heldur betur tókst,” sagði Andri Rúnar, framherji ÍBV, aðspurður um tilfinninguna eftir gríðarlega öfluga frammistöðu.

Tímabilið fór mjög hægt af stað hjá Andra Rúnari en líkt og stigasöfnun Eyjamanna hefur frammistaða Andra Rúnars farið vaxandi með sumrinu og er hann nú farinn að minna á framherjann sem skoraði eftirminnilega 19 mörk með Grindavík sumarið 2017.

„Mér fannst ég vera á góðri leið í sumar en svo lenti ég í smá bakslagi. Ég var búinn að vera meiddur í nokkrar vikur og var kannski svolítið að þrjóskast við að spila í gegnum sársauka. Það var ekki að hjálpa, hvorki mér né liðinu.

Þess vegna var frábært að sjá Arnar Breka og Dóra [Halldór Jón] bæta sig. Þeir í rauninni gerðu mér það kleift að taka smá pásu, jafna mig á meiðslum og koma til baka. Núna líður mér allt öðruvísi í líkamanum og ég er bara rosalega brattur fyrir framhaldinu á tímabilinu.”

Eftir leikinn eru Eyjamenn með 15 stig og eru nú fimm stigum frá Leikni sem situr í 11. sætinu. Að auki hefur liðið skilað góðri frammistöðu að undanförnu, sér í lagi á heimavelli. Andri Rúnar var bjartsýnn með framhaldið hjá Eyjamönnum.

„Þetta er bara nákvæmlega eins og við töluðum um þegar illa gekk. Frammistaðan var ekki léleg. Þannig að við vorum bara trúir sjálfum okkur. Við vissum alltaf að við værum góðir í fótbolta og vissum hvað við gætum gert.

Við vorum inni í öllum leikjum og vorum með þetta svolítið á móti okkur. En við vissum líka að ef við myndum harka í gegnum þetta og halda áfram á sömu braut, þá myndu stigin koma. Þau hafa svo sannarlega gert það,” sagði Andri Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert