ÍBV fór illa með FH-inga

Halldór Jón Sigurður Þórðarson skorar fyrsta mark leiksins.
Halldór Jón Sigurður Þórðarson skorar fyrsta mark leiksins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti FH í Bestu deild karla í fótbolta á Hásteinsvelli í dag. Leikurinn endaði með öflugum 4:1 sigri heimamanna í ÍBV.

Fyrir leikinn var ÍBV í níunda sæti með tólf stig og FH í tíunda með ellefu stig. Það voru því dýrmæt þrjú stig í boði fyrir bæði lið í dag.

Fyrri hálfleikur var algjörlega Eyjamanna og FH-ingar mættu einfaldlega ekki til leiks. ÍBV komst strax í byrjun í tvígang í gegnum vörn FH-inga.

Á 9. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Halldór Jón vann þá boltann inni í teig FH og kláraði vel framhjá Atla Gunnari sem stóð vaktina í marki FH-inga í dag. 1:0 fyrir ÍBV.

Aðeins fjórum mínútum síðar gerði Eiður Aron annað mark Eyjamanna. ÍBV tók þá hornspyrnu sem var ekkert sérstök. Boltinn hins vegar barst út til Atla Hrafns sem setti betri bolta inn í teiginn. Þar reis Eiður Aron hæst og átti skalla sem Atli Gunnar varði vel. Hins vegar fór boltinn aftur út til Eiðs sem setti hann í markið. 2:0 fyrir heimamönnum.

Á 35. mínútu áttu Eyjamenn sóknarlotu sem var að endingu stöðvuð með hendi FH-ings þegar Arnar Breki reyndi að vippa boltanum inn fyrir vörn FH. Vilhjálmur benti réttilega á punktinn. Þangað steig Andri Rúnar sem setti hann naumlega framhjá Atla Gunnari. 3:0 fyrir ÍBV og FH-ingar varla með í leiknum.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega þrátt fyrir að báðum liðum hafi tekist að ógna einu sinni eða tvisvar. Það voru hins vegar gestirnir sem klóruðu í bakkann eftir rúmlega klukkustundarleik. FH átti þá ágætis sókn sem endaði með því að Úlfur Ágúst, sem hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik, fékk boltann utarlega fyrir miðjum teig Eyjamanna. Hann nelgdi boltanum í varnarmann og í markið. Staðan 3:1 og heimamenn virtust vera að gefa eftir.

Á 72. mínútu var það hins vegar ÍBV sem skoraðu fimmta mark leiksins. Felix Örn hirti þá boltann af Ólafi Guðmundssyni og átti þaðan greiða leið að marki FH-inga. Honum brást ekki bogalistin og kláraði hann færið fagmannlega í mark FH, 4:1 fyrir ÍBV.

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og Eyjamenn ganga frá leiknum með gríðarlega mikilvæg þrjú stig í fallbaráttunni. ÍBV fer upp í 15 stig en FH-ingar eru enn með 11 stig í 10. sæti.

ÍBV 4:1 FH opna loka
90. mín. ÍBV fær hornspyrnu +2 í uppbót
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert