Valsmenn völtuðu yfir Stjörnuna

Orri Hrafn Kjartansson og Ísak Andri Sigurgeirsson eigast við í …
Orri Hrafn Kjartansson og Ísak Andri Sigurgeirsson eigast við í kvöld. mbl.is/Óttar

Valur vann sinn þriðja leik í röð í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld er liðið valtaði yfir Stjörnuna á heimavelli 6:1. Með sigrinum fór Valur upp fyrir Stjörnuna og upp í fjórða sætið, þar sem liðið er með 30 stig. Stjarnan er áfram með 28 stig, nú í fimmta sæti.

Stjarnan fékk ákjósanlegt færi til að skora fyrsta mark leiksins á 20. mínútu þegar Emil Atlason náði í vítaspyrnu eftir baráttu við Sebastian Hedlund. Emil fór sjálfur á punktinn en Frederik Schram í marki Vals varði vel frá honum.

Aðeins mínútu síðar voru Stjörnumenn hinsvegar komnir yfir. Elís Rafn Björnsson skallaði boltann þá að marki eftir horn og Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, skallaði aftur fyrir sig og í eigið mark.

Valsmenn voru hinsvegar langt frá því að leggja árar í bát, því Patrick Pedersen jafnaði á 30. mínútu. Hann slapp þá einn gegn Haraldi Björnssyni í marki Stjörnunnar eftir sendingu frá Ágústi Eðvald Hlynssyni og skoraði.

Fimm mínútum síðar voru Valsmenn komnir yfir. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók þá á rás upp vinstri kantinn og sendi boltann á Aron Jóhannsson sem kláraði með glæsilegu skoti utan teigs.

Gott varð betra fyrir Val á 42. mínútu þegar Pedersen slapp aftur einn í gegn, nú eftir sendingu frá Tryggva Hrafni, og skoraði af öryggi og sá til þess að Valur fór með 3:1-forskot í hálfleikinn.

Valsmenn þurftu ekki að bíða lengi eftir fjórða markinu í seinni hálfleik, því Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði með hnitmiðuðu skoti við vítateigslínuna á 49. mínútu eftir sendingu frá Ágústi Eðvald. Aron Jóhannsson lét boltann fara í gegnum klofið á sér og Tryggvi mætti fyrir aftan hann og kláraði vel.

Tryggvi bætti við sínu öðru marki og fimmta marki Vals á 65. mínútu þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu af um 25 metra færi. Afgreiðslan var hin glæsilegasta, upp í bláhornið. Aðeins mínútu síðar skoraði Pedersen sitt þriðja mark eftir sendingu frá Aroni Jóhannssyni, 6:1. 

Fleiri urðu mörkin ekki og Valsmenn fögnuðu afar sannfærandi sigri. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 6:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is