Fannst þetta ekki sanngjörn úrslit

Dagur Dan Þórhallsson átti stóran þátt í marki Breiðabliks í …
Dagur Dan Þórhallsson átti stóran þátt í marki Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Beint eftir leik finnst mér þetta ekki sanngjörn úrslit,“ sagði Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli við Víking úr Reykjavík í toppslag Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.

„Við vorum töluvert sterkari aðilinn, þótt þeir hafi auðvitað verið sterkir eftir markið sitt. Svo kemur þetta rauða spjald, en frá mínu sjónarhorni rennur hann bara á vellinum og kemur varla við Víkinginn. Fyrir mér snýst þetta um að vera nógu klókur og skilja leikinn aðeins,“ sagði hann en Damir Muminovic fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á lokakaflanum.

Leikurinn er sá fyrsti sem Breiðablik vinnur ekki á heimavelli í deildinni á leiktíðinni. „Það vantaði ekkert upp á, þannig séð. Baráttan var fín en kannski vorum við of baráttuglaðir stundum. Menn voru hátt uppi, mikið af gulum spjöldum og leikurinn mjög mikið stopp. Þetta var erfiður leikur, þar sem boltinn var ekki mikið í leik í fyrri hálfleik. Það vantaði smá ró hjá okkur,“ sagði Dagur.

Bæði lið virkuðu þreytt, enda búin að vera undir miklu álagi undanfarnar vikur í Evrópukeppnum. Dagur segir Blika þó ekki þreytta.

„Það er búið að vera mikið af ferðalögum, en við höfum talað um í viðtölum að við séum ekki þreyttir. Það er geggjað að fá að spila á tveggja til þriggja daga fresti og fá að ferðast í Evrópu. Ef þeir voru þreyttir, þá voru þeir þreyttir, en við vorum það ekki.“

Breiðablik er sex stigum á undan KA í öðru sæti og átta stigum á undan Víkingi, en Víkingur á leik til góða. „Þetta er hörkubarátta og við verðum að halda áfram. Það skiptir engu máli hvað fólk segir. Við erum enn átta stigum á undan Víkingi, þótt þeir eigi leik til góða,“ sagði Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert