Töluðum um að þeir væru ekkert það góðir í seinni

Sindri Þór Guðmundsson fékk kjörið tækifæri til þess að skora …
Sindri Þór Guðmundsson fékk kjörið tækifæri til þess að skora sigurmark Keflavíkur í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sindri Þór Guðmundsson var á sínum stað í hægri bakverði hjá Keflavík þegar liðið gerði markalaust jafntefli við KR í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var fínn leikur af okkar hálfu. Þeir voru hættulegri í fyrri hálfleik. Við töluðum um það fyrir leik að þeir eru góðir í fyrri hálfleik en ekkert það góðir í seinni og við tókum yfir í seinni hálfleik.

Við fengum fullt af færum, við áttum allar hornspyrnur en því miður datt þetta ekki inn,“ sagði Sindri Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

Sjálfur fékk hann eitt besta færi leiksins á 86. mínútu þegar hann fékk boltann frá Joey Gibbs í kjölfar laglegs spils en skot Sindra Þórs af stuttu færi fór í andlitið á Beiti Ólafssyni í marki KR.

„Svona er þetta bara. Stundum fer hann inn og stundum fer hann í andlitið og út,“ sagði hann í léttum dúr.

Sindri Þór sagði Keflvíkinga ánægða með að halda hreinu en hann hefði viljað sjá liðið skora í leiknum.

„Við erum mjög sáttir við að halda hreinu. Við gáfum þeim aðeins of mörg færi, í fyrri hálfleik sérstaklega og Nacho [Heras] bjargaði á línu í seinni hálfleik. Annars voru þeir ekki að skapa sér mikið fyrir utan það, og við óheppnir að skora ekki.“

Með sigri hefði Keflavík komist upp fyrir KR í sjötta sætið en að 22 leikjum loknum skiptist deildin í tvennt þar sem sex efstu liðin etja kappi í fimm leikjum og sex neðstu liðin sömuleiðis.

„Það er ennþá markmiðið að komast þangað. Það eru fimm leikir eftir þangað til að deildin skiptist. Það eru 15 stig og við eigum séns á að klífa upp töfluna og koma okkur í topp sex,“ sagði Sindri Þór að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert