Njarðvík þarf tvo sigra í viðbót

Njarðvík lék í varatreyjum Vals í kvöld, þar sem dómarinn …
Njarðvík lék í varatreyjum Vals í kvöld, þar sem dómarinn Gunnar Oddur Hafliðason er litblindur og grænt og rautt hefðu gert honum erfitt fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njarðvík er tveimur sigrum frá því að tryggja sér sæti í 1. deild karla í fótbolta eftir 2:1-útisigur á Haukum í kvöld. Leikið var á Origo-vellinum, heimavelli Vals, þar sem verið er að leggja nýtt gervigras á heimavelli Hauka á Ásvöllum.

Kristófer Dan Þórðarson kom Haukum yfir með marki úr víti á 14. mínútu en Ari Már Andrésson jafnaði á 37. mínútu og Sölvi Björnsson gerði sigurmarkið á 73. mínútu.

Þróttur úr Reykjavík, sem er í öðru sæti, missteig sig gegn Víkingi frá Ólafsvík á útivelli en lokatölur í bráðfjörugum leik urðu 3:3. Ernest Slipski kom Þrótturum yfir en Andri Þór Sólbergsson gerði tvö mörk og Luis Jorge eitt fyrir heimamenn og breytti það stöðunni í 3:1. Þróttur neitaði hinsvegar að gefast upp og Hinrik Harðarson jafnaði með tveimur mörkum á 69. og 73. mínútu.

Bjarki Baldvinsson og Áki Sölvason fagna sigurmarkinu á Húsavík.
Bjarki Baldvinsson og Áki Sölvason fagna sigurmarkinu á Húsavík. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Völsungur vann baráttuna um þriðja sætið við Ægi er liðin mættust á Húsavík. Rafnar Máni Gunnarsson kom Völsungi yfir strax á 7. mínútu en Anton Breki Viktorsson virtist vera að tryggja Ægi eitt stig með marki á 79. mínútu. Húsvíkingar voru hinsvegar ekki hættir því Áki Sölvason skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Höttur/Huginn hafði mikla yfirburði í Austurlandsslag gegn KFA en leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Urðu lokatölur 5:0. Matheus Gotler gerði tvö mörk fyrir Hött/Hugin og þeir Rafael Victor, Eiður Orri Ragnarsson og Unnar Birkir Árnason eitt mark hver.

Loks skildu Reynir frá Sandgerði og ÍR jöfn, 0:0, í Sandgerði.

Staðan í deildinni.
Staðan í deildinni. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert