Bikarmeistararnir í undanúrslit eftir stórkostlegan leik

Ingvar Jónsson og Oliver Ekroth hjá Víkingi verjast Ægi Jarli …
Ingvar Jónsson og Oliver Ekroth hjá Víkingi verjast Ægi Jarli Jónassyni úr KR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bikarmeistarar Víkings eru komnir í undanúrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir 5:3-sigur á KR í ótrúlegum leik í Víkinni í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun. Eftir rúmlega korter skoraði Hallur Hansson mark sem virtist vera löglegt en var dæmt af vegna rangstöðu. Endursýningar sýndu að dómurinn var líklega rangur en erfitt var að sjá að einhver KR-ingur hefði verið fyrir innan þegar markið var skorað. Eftir tæplega hálftíma lengdist svo langur meiðslalisti Víkings enn frekar þegar Karl Friðleifur Gunnarsson virtist togna aftan í læri og varð að yfirgefa völlinn. Inn á í hans stað kom Helgi Guðjónsson en Viktor Örlygur Andrason færðist þá í hægri bakvörð úr þeim vinstri, Pablo Punyed fór í vinstri bakvörð og Erlingur Agnarsson inn á miðjuna. Þessar breytingar hleyptu miklu lífi í leikinn en einungis tveimur mínútum síðar var Erlingur búinn að koma Víkingi yfir. Pablo átti þá frábæra fyrirgjöf úr vinstri bakverðinum á Erling sem skallaði boltann í netið á fjærstönginni.

Einungis þremur mínútum síðar tvöfaldaði Birnir Snær Ingason svo forystu Víkings. Varamaðurinn Helgi Guðjónsson átti þá fallega fyrirgjöf frá hægri og eftir misskilning í vörn KR var Birnir aleinn á miðjum teignum og kláraði auðveldlega í netið. 

Á lokamínútu fyrri hálfleiks minnkaði Theodór Elmar Bjarnason þó muninn fyrir KR og gerði stöðu liðsins talsvert betri fyrir seinni hálfleikinn. Kennie Chopart átti þá fyrirgjöf frá hægri á Ægi Jarl Jónasson, sem reyndi hjólhestaspyrnu sem endaði í fótum Theodórs. Hann tók boltann vel niður áður en hann kláraði á fjærstönginni, framhjá Ingvari.

Eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleik kom Ari Sigurpálsson Víkingi aftur í tveggja marka forystu. Danijel Dejan Djuric setti þá boltann á hann úti vinstra megin en Ari fékk allt plássið í heiminum til að rekja boltann inn á teiginn og klára fallega niðri í fjærhornið. Varnarleikur KR leit ekki vel út í markinu en Ari fékk ótrúlegan tíma einn og óvaldaður.

Á 67. mínútu minnkaði svo Atli Sigurjónsson svo muninn aftur í eitt mark. Stefán Árni Geirsson, sem var nýkominn inn á sem varamaður, gerði þá mjög vel vinstra megin, lyfti boltanum inn á miðjan teiginn þar sem Atli mætti og stangaði boltann frábærlega í netið. 

Undir lok leiks var svo mikil dramatík. KR sótti mikið og þegar um fimm mínútur voru eftir skoraði Stefán Árni eftir sendingu Þorsteins Más, en Pétur Guðmundsson var of fljótur á sér og hafði dæmt vítaspyrnu fyrir brot í aðdraganda marksins. Það kom þó ekki að sök því Sigurður Bjartur Hallsson skoraði af öryggi úr spyrnunni og jafnaði. 

Í næstu sókn var svo komið að Víkingum að fá vítaspyrnu. Pontus Lindgren braut þá á Danijeli Dejan og eftir langan umhugsunarfrest benti Pétur á punktinn. Helgi Guðjónsson skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni og kom Víkingi aftur yfir. Stuttu síðar var það svo varamaðurinn ungi, Sigurður Steinar Björnsson sem gerði út um leikinn þegar hann skoraði fimmta mark Víkings. Hann keyrði þá óhræddur á vörn KR og kláraði frábærlega í nærhornið utan teigs.

Víkingar eru því komnir í undanúrslit og verða í pottinum þegar dregið verður, en KR er úr leik.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 5:3 KR opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu
mbl.is