Fjölnir vann í sjö marka leik – naumur sigur Gróttu

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson og félagar í Fjölni fögnuðu sigri í …
Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson og félagar í Fjölni fögnuðu sigri í markaleik. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fjölnir hafði betur gegn Grindavík, 4:3, í miklum markaleik í Grafarvoginum í Lengjudeild karla í fótbolta, 1. deild, í kvöld.

Grindavík byrjaði töluvert betur og Kenan Turudija og Aron Jóhannsson komu gestunum í 2:0 á fyrstu átta mínútunum. Dofri Snorrason minnkaði muninn á 10. mínútu og Hans Viktor Guðmundsson jafnaði á 31. mínútu og var staðan í hálfleik 2:2.

Kristófer Páll Viðarsson kom Grindavík aftur yfir á 59. mínútu en Fjölnismenn voru sterkari á lokakaflanum, því Viktor Andri Hafþórsson jafnaði í 3:3 á 66. mínútu og Hans Viktor skoraði sitt annað mark og fjórða mark Fjölnis á 69. mínútu og þar við sat.

Grótta hafði betur gegn botnliði Þróttar frá Vogum á útivelli. Englendingurinn Luke Rae reyndist hetjan, því hann gerði sigurmarkið á 29. mínútu.

Þá unnu Kórdrengir sannfærandi 4:0-sigur á Vestra á heimavelli. Arnleifur Hjörleifsson og Morten Hansen gerðu fyrstu tvö mörkin í fyrri hálfleik og Loic Ondo og Bjarki Björn Gunnarsson seinni tvo í síðari hálfleik. Mörk Ondo og Bjarka komu bæði úr vítaspyrnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert