Getur ekki ímyndað þér hversu pirrandi þetta var

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Blika.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Blika. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við erum öll svekkt með niðurstöðu dagsins og þá sérstaklega hvernig við byrjuðum leikinn,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:4-tap liðsins gegn Rosenborg í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í Þrándheimi í Noregi í dag.

Blikar byrjuðu leikinn skelfilega og voru lentir 0:3 undir eftir einungis 18. mínútna leik en Rosenborg bætti við fjórða marki leiksins strax í upphafi síðari hálfleiks.

„Þetta var því miður allt of auðvelt fyrir þær þarna í upphafi leiks og þær ná fjórum snöggum upphlaupum á þessum fyrstu mínútum. Þær skora þrjú mörk úr þeim og eiga svo eitt sláarskot. Þú getur svo ekki ímyndað þér hversu pirrandi það var að fá þetta fjórða mark á sig strax í upphafi síðari hálfleiks.

Þá koma upp aðstæður sem við ráðum ekki við því Heiðdís Lillýardóttir getur ekki haldið leik áfram þegar hún er komin inn á völlinn. Við getum ekki gert skiptungu og við erum því einum færri fyrstu fjórar mínúturnar í síðari hálfleik. Þær skora á strax eftir tveggja mínútna leik og þetta reyndist því ansi dýrkeypt,“ sagði Ásmundur.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í baráttunni gegn París SG í riðlakeppni …
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í baráttunni gegn París SG í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. AFP

Ætla að enda ferðalagið á góðum nótum

Ásmundur stýrði liðinu í riðlakeppninni Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð en ferðalag Blika í keppninni í ár endar í Þrándheimi.

„Það eru allir frekar langt niðri núna en það er bikarúrslitaleikur framundan hjá liðinu og við ætlum okkur að nýta tímann vel hérna í Þrándheimi í að slípa liðið vel saman. Það hefur verið rót á leikmannahópnum og við misstum Áslaugu Mundu og Hildi Þóru báða út á dögunum. Við þurfum að finna taktinn og við ætlum okkur klárlega sigur á sunnudaginn kemur.“

Blikar mæta Slovácko frá Tékklandi í leik um 3. sæti riðilsins.

„Við horfðum á leikinn hjá þeim í hádeginu og þó þessi leikur telji kannski ekki mikið þá er hann samt mikilvægur fyrir okkur. Við ætlum okkur að enda þessa ferð á betri nótum en úrslitunum í dag,“ bætti Ásmundur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert