Stolt af stelpunum eftir sigur í steikjandi hita og á þurru grasi

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals.
Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði ríkjandi Íslandsmeistara Vals, var hæstánægð með 2:0-sigurinn á armensku meisturunum í Hasaya í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í sjóðandi hita í Radenci í Slóveníu í morgun.

„Ég er ótrúlega glöð með að hafa klárað leikinn 2:0, að hafa skorað tvö mörk og ekki fengið á okkur mark. Þær voru alveg sprækar og áttu leikmenn uppi í erminni, sem kom okkur kannski ekki beint á óvart en við vissum svo lítið um þær.

Ég er bara ánægð með það hvernig við mættum í leikinn, við mættum af krafti og hefðum getað sett á þær fleiri mörk fyrstu 15 mínúturnar.

Svo erum við að spila í aðstæðum sem við erum kannski ekki beint vanar, það var steikjandi hiti og þurrt gras, þannig að ég held að við getum gengið nokkuð sáttar frá borði,“ sagði Elísa í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Aðstæður ekki upp á marga fiska

Auk gífurlegs hita, sem fór upp í 33 gráður á meðan leiknum stóð, var völlurinn í Radenci ekki góður, skraufþurr og illa hirtur. Það kom oft niður á fyrstu snertingu Valskvenna og varð af þeim sökum þess valdandi að álitlegar sóknarstöður runnu út í sandinn.

„Já, klárlega. Aðstæðurnar voru ekki upp á marga fiska, aðstæður sem við erum ekki beint vanar. En mér fannst við takast vel á við það og ég er bara ótrúlega stolt af stelpunum,“ bætti hún við.

Spurð hvort Hayasa hafi komið Val eitthvað á óvart sagði Elísa:

„Við bjuggumst bara við því að fá hörkuleik  þar sem þetta var ótrúlega mikilvægur leikur að vinna. Við undirbjuggum okkur þannig að við værum að fara að spila á móti góðum andstæðingi og að við þyrftum að vera á okkar degi til þess að vinna leikinn. Mér fannst við gera það vel.“

Sköpuðu sér engin hættuleg færi

Leikmenn Hayasa komu sér nokkrum sinnum í fínar sóknarstöður með hjálp gífurlegs hraða nokkurra þeirra en varnarleikur Vals var með besta móti enda sköpuðu armensku meistararnir sér engin opin færi.

„Þær voru með nokkra spræka leikmenn en sem betur fer vorum við með þær í góðri gæslu og að mínu mati sköpuðu þær sér engin hættuleg færi þannig séð.

Þær komust stundum í álitlegar stöður en við vorum fljótar að loka á þeirra hættulegustu leikmenn og svæðin sem hefðu getað sært okkur. Það var ótrúlega sætt að fá ekki á sig mark,“ sagði hún.

Fá upplýsingar síðar í dag

Í úrslitaleik 1. umferðar Meistaradeildarinnar mætir Valur annað hvort heimakonum í Pomurje frá Radenci-bæ eða Shelbourne frá Írlandi. Vita Valskonur eitthvað um mögulega andstæðinga sína næstkomandi sunnudag?

„Nei í raun og veru ekki. Við vorum að setja allan fókus á Armenanna fyrir þann leik. Svo spilast seinni leikurinn [milli Pomurje og Shelbourne] í dag.

Við erum sennilega að senda okkar fólk á staðinn og þá verðum við með góðar upplýsingar í höndunum um við hverju má búast í næsta leik,“ sagði Elísa að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert