Breiðablik síðasta liðið í undanúrslitin

Dagur Dan Þórhallsson leikmaður Breiðabliks með boltann í leiknum í …
Dagur Dan Þórhallsson leikmaður Breiðabliks með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Liðið vann HK 1:0 í nágrannaslag í Kórnum í Kópavogi.

Fyrri hálfleikurinn var frekar bragðdaufur en Gísli Eyjólfsson fékk besta færi Breiðabliks eftir rúmlega hálftíma leik. Hann fékk þá boltann af um meters færi eftir hornspyrnu en hitti ekki markið.

Besta, eða í raun bestu færi hálfleiksins voru þó heimamanna í HK en eftir langt innkast Örvars Eggertssonar átti Teitur Magnússon skalla í þverslá. Frákastið datt fyrir Oliver Haurits en Elfar Freyr Helgason varði skalla hans á marklínu.

Frákastið af því datt fyrir fætur Ásgeirs Marteinssonar, sem fékk líklega besta færið af þessum þremur, en hann hitti ekki markið af um fimm metra færi. Staðan í hálfleik því markalaus þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið góð færi til að skora. 

Seinni hálfleikurinn var ekki nema 10 mínútna gamall þegar Blikar brutu ísinn. Jason Daði Svanþórsson átti þá góða fyrirgjöf frá hægri sem Omar Sowe stýrði í netið af nærsvæðinu. Reyndist þetta eina mark leiksins en þrátt fyrir að Blikar hafi verið mun meira með boltann voru HK alltaf hættulegir. 

Undir lok uppbótartímans skoraði Örvar Eggertsson glæsilegt skallamark fyrir HK eftir fyrirgjöf Hassans Jalloh en hann var réttilega dæmdur rangstæður og Blikar fögnuðu því sigrinum.

Eins og áður sagði er Breiðablik því komið í undanúrslit keppninnar. Í hálfleik leiksins í kvöld var svo dregið í undanúrslitin og mætir Breiðablik Víkingi á heimavelli. Í hinum undanúrslitaleiknum fær FH KA í heimsókn.

Sölvi Snær Guðbjargarson leikmaður Breiðabliks leikur boltanum framhjá Bjarna Páli …
Sölvi Snær Guðbjargarson leikmaður Breiðabliks leikur boltanum framhjá Bjarna Páli Linnet Runólfssyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
HK 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við!
mbl.is