Reynum auðvitað við titilinn á meðan við eigum möguleika

Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttu við Daníel Laxdal í kvöld.
Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttu við Daníel Laxdal í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hallgrímur Mar Steingrímsson var ánægður með 4:2-sigurinn gegn Stjörnunni í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld en sagði leikinn hafa verið nokkuð skrítinn.

„Þetta var helvíti opinn leikur miðað við okkur. Við erum ekki vanir því að vera svona opnir til baka og fáum tvö víti á okkur. Þetta var bara mjög skrítið, við fáum líka tvö víti. Ég er svona enn að átta mig á leiknum,“ sagði Hallgrímur Mar í samtali við mbl.is eftir leik.

Sjálfur skoraði hann eitt marka KA í stórskemmtilegum og galopnum fyrri hálfleik þar sem staðan var 3:2 í leikhléi. Leikurinn róaðist talsvert í þeim síðari. Hverju breytti KA í hálfleik?

„Við lögðum upp með það í seinni hálfleik að droppa niður ef við værum búnir að tapa pressunni. Við vorum svo opnir þegar við töpuðum boltanum í fyrri hálfleik, þá var svo auðvelt fyrir þá að sækja hratt.

Þannig að það var meðvituð ákvörðun um að vera þéttari til baka í seinni hálfleik. Það skilaði engum mörkum hjá þeim þannig að það heppnaðist,“ útskýrði Hallgrímur Mar.

KA er nú þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks, sem á þó leik til góða annað kvöld, gegn Fram í Úlfarársdal þar sem heimamenn hafa enn ekki tapað leik. Víkingur úr Reykjavík, sem er í þriðja sæti, á svo tvo leiki til góða á KA og getur því endurheimt annað sætið.

Hann sagði að á meðan möguleikinn sé fyrir hendi muni KA gera allt sem það geti til þess að narta í hæla Blika og Víkinga og berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við erum á fínu skriði og við setjum auðvitað pressu á Breiðablik og Víking. Þó þau eigi leik inni erum við alltaf aðeins að kroppa í þau þarna rétt fyrir aftan.

Við eigum líka eftir að spila tvisvar við bæði liðin þannig að það er bullandi séns í þessu ennþá. Það getur hvað sem er gerst. Við ætlum auðvitað að reyna að vinna titilinn á meðan við eigum möguleika á því,“ sagði Hallgrímur Mar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is